Ofanflóðamannvirki hafa margsannað gildi sitt
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 11. apr 2025 14:33 • Uppfært 11. apr 2025 14:33
Varnir sem reistar hafa verið hérlendis gegn ofanflóðum undanfarin þrjátíu ár hafa ítrekað sannað gildi sitt. Meðal annars í Neskaupstað hafa þau komið í veg að flóð næðu niður í byggð. Stöðugt þarf þó að endurskoða varnir eftir því sem nýjar upplýsingar koma fram. Þörf er talin á að endurskoða mat á skriðuhættu við þrjá austfirska þéttbýlisstaði.
Þetta kemur fram í svari Jóhanns Páls Jóhannssonar, umhverfis-, orku-og loftslagsráðherra við fyrirspurn Dags B. Eggertssonar, þingmanns Samfylkingarinnar í Reykjavík, um reynslu af ofanflóðasjóði og horfur á framkvæmdum til framtíðar.
Ofanflóðasjóður varð til með lögum frá Alþingi árið 1997, að hluta til í kjölfar mannskæðra snjóflóða á Vestfjörðum árið 1995. Hann hefur síðan staðið að hönnun og framkvæmdum ofanflóðamannvirkja eða uppkaupum á íbúðahúsum þar sem vörnum er ekki viðkomið.
Varnir hafa risið í þeim 15 byggðarlögum þar sem íbúðarhús voru í mestri hættu og búið er að reisa um 70% þeirra varna sem þarf til að verja íbúabyggð í þéttbýli. Varnirnar hafa reynst vel, alls hafa 58 snjóflóð fallið á varnargarða, flest á Flateyri. Bæði þar og í Neskaupstað hafa fallið snjóflóð sem hefðu farið yfir byggð ef varnirnar hefðu ekki verið til staðar. Á Flateyri árið 2020 gusaðist yfir varnargarða úr flóði og er það áminning um að hætta neðan varna hverfi aldrei alveg.
Reynslan af lagaumhverfi sjóðsins er almennt talin góð, hún hafi leitt til skýrrar forgangsröðunar. Hins vegar sé tímabært að endurskoða lögin, til dæmis hvort rétt sé að fara í varnir gegn ofanflóðum á atvinnusvæðum þegar búið verður að verja íbúabyggð, en vakin hefur verið athygli á þörfinni á slíku á bæði Seyðisfirði og í Neskaupstað. Sjóðurinn er talinn standa vel til að takast á við næstu verkefni.
Endurmeta þarf skriðuhættu á þremur stöðum á Austfjörðum
Áhættumati þéttbýlisstaðanna lauk í fyrra með hættumati Stöðvarfjarðar í fyrra. Unnið hefur verið að áhættumati skíðasvæða. Á Austurlandi er mati lokið fyrir Oddsskarð og hafið fyrir Stafdal. Þá er safnað gögnum um ofanflóð í dreifbýli. Á Austurlandi er það búið í Fljótsdal, Skriðdal og Jökuldal.
Ofanflóðasjóður hefur styrkt hættumöt víða um land. Á Seyðisfirði var hættumat síðast endurskoðað í kjölfar skriðufallanna árið 2020. Þar er verið að undirbúa skriðuvarnir og eftir þær þarf að endurskoða matið. Í Neskaupstað er verið að endurskoða hættumat en það eldra var unnið árið 2002. Matið fyrir Eskifjörð er jafn gamalt. Þar er verið að endurskoða snjóflóðahættumat og endurskoðun skriðuhættumats er að hefjast. Þar þarf að endurskoða hættumat eftir gerð varna. Sama gildir um Fáskrúðsfjörð.
Samkvæmt svarinu er lagt til að skriðuhætta verði endurmetin í Neskaupstað, á Eskifirði og Fáskrúðsfirði. Loftslagsbreytingar eru taldar auka skriðuhættu. Aurflóðin á Seyðisfirði eru nefnd sem dæmi um óvæntan atburð sem læra þarf af.
Í svari er einnig komið fram á að halda þurfi við varnarmannvirkjum sem veðrist þegar fram líða stundir en líka bregðast við breytingum. Í Drangagili ofan Neskaupstaðar er í ár fyrirhugað að hefja endurbætur á stoðvirkjum í upptakasvæði í ár. Bæta þarf við varnarkeilum undir gilinu og viðhalda eða jafnvel endurbyggja núverandi keilur. Virkni leiðigarðs undir Miðstrandarskarði þarf að bæta.