Oft erfitt fyrir erlenda borgara að nálgast opinberar upplýsingar
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 21. jún 2023 17:37 • Uppfært 21. jún 2023 17:39
Brestur er á að upplýsingar sem erlent fólk, sem kemur hingað til starfa, séu aðgengilegar þegar til á að taka. Þau sem sýna áhuga á að læra íslensku eru fljótari að komast inn í samfélagið.
Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Veerle Vallons og Karenar Ýrar Kjartansdóttur frá mannauðssviði VHE á málþingi um geðheilbrigði á Austurlandi sem haldið var í síðasta mánuði.
Veerle og Karen Ýr, sem einkum aðstoða erlenda starfsmenn VHE, sögðu oft skorta upp á upplýsingagjöf þeirra stofnana sem eiga að halda utan um erlent starfsfólk sem hingað kemur. Þannig hafa opinberar upplýsingasíður ætlaðar erlendur fólki oft ekki reynst virkar þegar til átti að taka og því reynast einföld verk eins og að fá kennitöl eða greiða skatta ekki svo einföld.
Veerle er sjálf belgísk og kom til Íslands fyrir þremur árum. Fram kom að 88% starfsfólks VHE á Austurlandi er erlent, stór hluti þess kemur frá Rúmeníu. Í Fjarðabyggð voru erlendir ríkisborgarar 20% íbúa í byrjun ársins.
Hún segir það erlenda stafsfólk sem vill læra íslensku vera fljótara að brjóta niður múrana sem þarf að fara í gegnum til að komast inn í austfirskt samfélag.
„Íslendingar sýna sannarlega jákvæð viðbrögð þegar erlent fólk reynir sig við íslenskuna og að komast inn í íslenskt samfélag. Fólk er meira „samþykkt“ ef það er raunin. En vegna þess hve stór hluti starfsfólksins er erlent og kann ekki tungumálið er oftast nær enska notuð til samskipta.“
Veerle segir að skipta megi erlendu starfsfólki VHE hér austanlands í tvo flokka. „Annar flokkurinn samanstendur af fólki sem hefur vilja til að vera hér áfram til langtíma og setjast hér að. Hinn hópurinn er aðeins hér tímabundið til að þéna peninga og heldur svo heim á leið.
Rúmenarnir til dæmis virðast meira og minna þekkja hvern annan og halda hópinn saman því þeir geta talað saman og margir þeirra kunna ekki mikla ensku. Sem aftur þýðir að það er mjög flókið að komast inn í „kerfið“ hérlendis. Ef þeir veikjast og þurfa aðstoð þurfa þeir að hringja í einhvern félaga sinn sem kann ensku og getur óskað aðstoðar. Þetta getur oft verið töluverð vinna til að komast til læknis.“
Myndir: Ófeigur Ö. Ófeigsson/Hnit verkfræðistofa
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.