Oftast skýringar fyrir hendi þegar ókunnugt fólk nálgast börn

Lögreglan á Austurlandi telur ekki ástæðu til að halda áfram skoðun á atviki þar sem barni var boðið upp í bíl nýverið. Oftast liggja gildar skýringar að baki atvikum þótt rétt sé að láta lögreglu vita.

Í austfirskum íbúahópum á Facebook hefur síðustu daga verið tilkynnt um tvö sambærileg atvik þar sem ókunnugt fólk á ferð í bílum gefur sig að börnum og býður þeim sælgæti og/eða sæti í bílnum.

Annað atvikið var á Fáskrúðsfirði fyrir rúmri viku, hitt í Neskaupstað um helgina. Samkvæmt lýsingum var börnum í báðum tilfellum boðið sælgæti, en aðeins í annað skiptið upp í bílinn.

Númer annarrar bifreiðarinnar náðist og var komið til lögreglu. Það var í kjölfarið skoðað og ekki talin ástæða til að gera meira. Hitt atvikið hafði ekki enn verið tilkynnt lögreglu þegar Austurfrétt hafði samband.

„Lögreglu berast öðru hverju ábendingar um mál sem þessi og fylgir þeim eftir. Annað þessara mála sem um ræðir og þú spyrð um, var tilkynnt lögreglu og skoðað. Þykja að skoðun lokinni engin efni til að halda málinu áfram. Svo er um langflest þessara mála, að skýringar eru fyrir hendi eða ekkert er þar að finna sem kallar á frekari rannsókn.

Að því sögðu hvetur lögregla til að mál sem þessi séu tilkynnt henni, jafnvel þó á litlu þyki að byggja, en upplýsingar geta fljótt safnast saman og veitt vísbendingar sem leiða til þess að mál upplýsist, á hvorn veginn sem er. Hægt er að senda ábendingar á netfang lögreglu, This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.,“ segir í svari lögreglunnar á Austurlandi við fyrirspurn Austurfréttar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.