„Okkur er uppálagt að fara frekar af stað en ekki“
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 01. júl 2025 11:02 • Uppfært 01. júl 2025 11:04
Snör viðbrögð tvíburasystranna Katrínar Önnu og Lísbetar Evu Halldórsdætra þegar ungt barn lenti í vandræðum í Sundlauginni á Egilsstöðum í síðustu viku hafa vakið athygli. Þær segja góða þjálfun mikilvæga því bregðast þurfi við ýmsum atvikum. Rauði krossinn í samstarfi við fleiri aðila stendur í sumar fyrir átaki þar sem hvatt er til árvekni með börn í sundlaugum.
Systurnar eru 22ja ára gamlar, aldar upp á Egilsstöðum og eru að hefja sitt þriðja sumar við störf í sundlauginni. „Við fórum á námskeið hjá Rauða krossinum áður en við byrjuðum að vinna. Þar lærðum við að koma auga á hættumerki fyrir köfnun, drukknun og heilablóðfall.
Þetta er bæði bóklegt og verklegt námskeið. Það þarf að standast ákveðin hæfnisviðmið í sundi og svo skyndihjálp,“ segja þær.
Snör viðbrögð
Það var Mannlíf sem fjallaði fyrst um atvikið í síðustu viku þar sem sundlaugargestur hrósaði þeim fyrir snör viðbrögð þegar barn lenti í vanda í lauginni. Systurnar voru saman á vakt, fóru saman af stað og önnur þeirra út í laugina meðan hin beið tilbúin á bakkanum.
Samkvæmt verklagsreglum er þeim ekki heimilt að tjá sig opinberlega um einstök atvik sem verða í lauginni. Sem betur fer er ekki algengt að sundlaugarverðir þurfi út í laugar, en það kemur þó fyrir. Þeim er uppálagt að vera undir það búnir. „Við eigum að fara af stað frekar en ekki. Það er betra að gera eitthvað frekar en bíða og sjá,“ segir Lísbet.
Fylgst með að fólk haldi fullri meðvitund í pottinum
Mikilvægt er fyrir sundlaugarverðina að þekkja hvers kyns hættumerki og geta mögulega gripið til forvarna. Til dæmis ef fólk er of lengi í heita pottinum þannig að um of hægist á hjartslætti. „Það þarf ekki bara að vakta börn heldur fólk á öllum aldri. Hætturnar eru mismunandi eftir aldri. Það geta orðið atvik, svo sem tengt hjarta, bæði í laug og pottunum.
Við förum og spyrjum fólk hvort það sé ekki allt í góðu ef okkur þykir það vera búið að vera lengi í heitum potti eða farið að verða syfjulegt. Einn starfsmaður hér er duglegur að færa fólki kalt vatn.
Fólk tekur því yfirleitt vel. Á móti eru foreldrar viðkvæmari fyrir því að hafa augun á börnum sínum. Við fáum stundum þau svör að barnið sé alveg synt. En það er aldrei að vita hvað gerist, til dæmis ef barnið fer eitt í djúpu laugina, ef það nær ekki niður í botn. Þá getur það örmagnast fljótt,“ útskýra Katrín Anna og Lísbet Eva.
Drukknun er þögul
Rauði krossinn, í samstarfi við Reykjavíkurborg og Samtök forstöðumanna sundstaða á Íslandi, hratt í síðustu viku af stað árvekniátaki til að koma í veg fyrir drukknanir. Átakinu er sérstaklega beint að foreldrum því drukknun er algengust hjá börnum 1-4 ára og þar á eftir 5-9 ára. Í kynningarefni er meðal annars komið inn á að foreldrum hætti sérstaklega til að ofmeta sundgetu barna sinna. Minnt er á að drukknun geti orðið á 30 sekúndum.
„Fólk sem er að drukkna kallar ekki á hjálp. Það bara rétt nær að halda andlitinu upp úr vatninu til að anda,“ segja systurnar. „Einkennin eru að fólkið verður lóðrétt í vatninu, andlitið er upp og gjarnan hendurnar fram,“ bæta þær við.
Aldrei lengur en 30 mínútur á vakt í einu
Í kynningarefninu kemur einnig fram að drukknanir séu tíðastar á þeim bað- eða sundstöðum þar sem ekkert eftirlit sé. Vel þjálfaðir og árvökulir sundlaugarverðir geta því skipt sköpum.
„Hér eru alltaf tveir á vakt, einn sem vaktar laugarnar og myndavélarnar en annar í afgreiðslunni. Þegar veðrið er gott og margir í lauginni er bætt við fólki. Sá sem vaktar laugina er aldrei lengur en hálftíma í einu. Það er til að halda fullri einbeitingu. Ef maður þreytist þá biður maður um skipti,“ segir Katrín.
Skemmtileg sundlaugamenning á Íslandi
Systurnar segjast hafa fengið talsverð viðbrögð eftir fréttina í síðustu viku þar sem fjallað var um skjót viðbrögð tvíburasystra. „Fólk vissi strax við hverjar var átt því það eru ekki margir tvíburar sem vinna hér.“ Þær eru þó sjaldnast saman á vakt þótt það hafi vissulega gerst í síðustu viku. „Það er alltaf einn karl og ein kona á vakt en stundum er skörun þannig við erum saman dagpart, sem er gaman,“ segja þær.
Starfið í sundlauginni felst ekki bara um afgreiðslu og vöktun, heldur líka að halda hreinum klefum og annað slíkt. „Aðalstarfið sem við erum þjálfaðar í er gæslan. Okkur líkar þetta vel. Sundlaugarmenningin á Íslandi er skemmtileg. Það er gaman þegar fólk annars staðar af landinu kemur. Hér er líka gaman þegar mörg börn eru í lauginni að leika sér.“