Skip to main content

Ólafur Áki sækist eftir öðru sætinu

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 10. feb 2022 15:22Uppfært 10. feb 2022 15:56

Ólafur Áki Ragnarsson, þróunarstjóri framkvæmda hjá Búlandstindi á Djúpavogi, hefur ákveðið að sækjast eftir öðru sætinu á lista Sjálfstæðisflokksins í Múlaþingi fyrir komandi kosningar. Valið verður í efstu sætin með prófkjöri 12. mars.


Ólafur Áki er fæddur 1955 á Djúpavogi, vélfræðingur að mennt frá Vélskóla íslands. Þá hefur hann lokið námi í opinberri stjórnsýslu og stjórnun frá Endurmenntun Háskóla Íslands.

Hann er giftur Ester Sigurðardóttur, starfsmanni hjá Fiskeldis Austfjarða. Þau eiga fimm börn og sjö barnabörn.

Ólafur var viðriðin sjómennsku í um 14 ár, þá lengst af sem vélstjóri á uppsjávarskipi og togara. Frá því 1986 hefur hann starfað á vettvangi sveitarfélaganna eða í um 35 ár, þar af sem bæjar- og sveitarstjóri í 28 ár.

„Ég hef haft brennandi áhuga á málefnum hinna dreifðu byggða frá unga aldri. Að hafa átt þess kost að fylgjast með og vera þátttakandi í því að byggðin á Austurlandi hefur vaxið og eflst eru ákveðin forréttindi.

Ný atvinnutækifæri og styrking innviða nýs sveitarfélags eru þau atriði sem ég mun leggja áherslu á komandi kjörtímabili. Þá tel ég mikilvægt að standa vörð um menningu okkar og sögu.

Með þeim tækniframförum sem átt hafa sér stað í heiminum á síðastliðnum árum, hvað varðar möguleika á dreifingu starfa, hafa skapast nánast óendanleg tækifæri fyrir fólk í hinum dreifðu byggðir hvað varðar að stunda fjölbreytta atvinnu í sinni heimabyggð.

Þrátt fyrir ný tækifæri í atvinnumálum er mikilvægt að hlúa að því sem fyrir er, má þar nefna landbúnað, ferðaþjónustu og sjávarútveg. Fylgja þarf eftir að þær stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru af hálfu ríkisins svo sem með ráðstöfun byggðakvóta skili sér til þeirra byggða sem byggja afkomu sína á sjávarútvegi,“ segir til tilkynningu Ólafs Áka.