Skip to main content

Ólík forgangsverkefni á Eskifirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 05. maí 2022 11:45Uppfært 05. maí 2022 11:48

Framboðin til bæjarstjórnar Fjarðabyggðar eru með ólík forgangsmálefni á Eskifirði. Ljóst er þó að félagsaðstaða eldri borgara er framarlega í röðinni.


Á framboðsfundi í Eskifjarðarskóla í gærkvöldi var spurt hvaða málefni frambjóðendur teldu mikilvægast að ráðast í þar.

Ragnar Sigurðsson, oddviti Sjálfstæðisflokks, sagði brýnast að horfa Eskjureitinn í miðbænum, en verið er að rífa gamla hraðfrystihúsið. Hann sagðist vilja fá íbúa að borðinu með hugmyndasamkeppni. Hægt sé að skapa skemmtilegt mannlíf í miðbænum ef vel er gætt að götumyndinni. Eins þurfi að ákveða hvað gert verði við fyrrum skrifstofuhús Eskju.

Hann nefndi að flokkurinn vildi styðja við hreinsunarátak íbúa og fyrirtækja að vori og nauðsynlegt væri að finna varanlegt húsnæði fyrir félagsstarf eldri borgara, sem verið hefur í Melbæ. Þar þyrfti annars hvort að finna nýtt húsnæði eða ráðast í endurbætur þar sem aðgengi að því sé orðið erfitt.

Arndís Bára Pétursdóttir frá Fjarðalista og íbúi á Eskifirði sagði að huga þyrfti sérstaklega að börnum og eldri borgara. Líkt og Ragnar nefndi hún Melbæ en bætti við fleirum stöðum svo sem félagsmiðstöðina, íþróttahúsið og Eskjuvöll. Þá þyrfti að klára stækkun leikskólans Dalborgar en skrifað var undir samninga um hana í vikunni. Hún kom inn á fleiri hluti svo sem göngustíga og bætt aðgengi við opinberar byggingar.

Jón Björn Hákonarson, oddviti Framsóknarflokks, minntist á leikskólann og að umfangsmiklum hafnarframkvæmdum sem eru í gangi en á að ljúka í haust eða næstu áramót. Þá þyrfti að klára skipulag til að ljúka ofanflóðavörnum sem fyrst. Þeim hafi fylgt rask en verið nauðsynlegar.

Hann nefndi einnig að byggja þyrfti upp húsnæði fyrir einyrkja, líkt og Múlann í Neskaupstað til að auka möguleika á störfum án staðsetningar. Sveitarfélagið þurfi að fá fleiri í það samstarf. Fulltrúar fleiri framboða töluðu um slíka möguleika á fundinum.

Anna Margrét Arnarsdóttir, sem leiðir lista Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, sagði framboðið vilja hafa samráð við íbúa um forgangsverkefni, til dæmis með kosningu. „Mér finnst það ekki beint vera í okkar höndum að ákveða hvað sé mikilvægast á Eskifirði.“ Hún bætti við að í stærri framkvæmdir, svo sem ofanflóðavarnir og þriggja fasa rafmagn út að laxeldiskvíum, þyrfti listinn lengri tíma til að rýna áður en hægt væri að svara.