Ólíklegt að byggingu nýs þjónustuhúss við Hengifoss ljúki á árinu
Smíðum á þjónustuhúsi fyrir ferðafólk við Hengifoss mun að líkindum ekki ljúka í sumar eins og ráð var fyrir gert. Stefnan er hins vegar að það opni formlega fyrir næsta sumar.
Þjónustuhús fyrir gesti Hengifoss hefur lengi verið á teikniborðinu í Fljótsdal enda Hengifoss annar vinsælasti ferðamannastaður Austurlands en þangað komu tæplega 80 þúsund gestir á síðasta ári.
Þjónusta er þó af skornum skammti við þessa austfirsku náttúruperlu og nýtt þjónustuhús á að bæta þar úr. Upphaflega vonaðist sveitarstjórn Fljótsdals til reisa slíkt hús sumarið 2022. Það gekk ekki eftir en síðastliðið haust voru undirritaðir samningar um smíðina við annars vegar MVA og hins vegar Austurbygg. Samkvæmt skilmálum þeirra samninga skyldi húsið tilbúið í lok júní á þessu ári.
Tafir gerðu fljótlega vart við sig þegar verkið var hafið. Fyrst og fremst vegna slæmrar tíðar meira og minna allan síðastliðinn vetur en einnig sökum vandamála við að steypa margar þær bogadregnu einingar sem þarf í bygginguna.
Sveitarstjóri Fljótsdals, Helgi Gíslason, segir húsið á þessari stundu nálgast það að geta kallast fokhelt en vill ekki fullyrða neitt um hvenær verkinu ljúki.
„Það hefur eitt og annað komið upp á við smíðina sem er miður því það er afskaplega mikilvægt að húsið opni fyrir gestum sem fer mikið fjölgandi við fossinn. Nú skal ég ekkert fullyrða um hvenær smíðinni lýkur eða hvort það tekst með haustinu jafnvel. Það væri óskandi en í öllu falli þá verður það opnað fyrir gestum hér fyrir næsta sumar.“
Tölvugerð mynd af þjónustuhúsinu. Þar munu gestir geta notið þjónustu og komist á salerni auk þess að fræðast um Hengifoss og aðra markverða staði í Fljótsdal.