Skip to main content

Olís eykur þjónustuna á Reyðarfirði með Lemon mini

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 16. jún 2023 15:10Uppfært 16. jún 2023 15:10

Endurbótum, sem staðið hafa yfir á stöð Olís á Reyðarfirði undanfarna mánuði, lauk í síðustu viku með Lemon mini horni inni á stöðinni. Stöðvarstjórinn segir mörg ný andlit hafa sést á stöðinni síðar.


„Lemon er að bætast við á mörgum Olísstöðvum. Með tilkomu hollari skyndibita eykst fjölbreytnin,“ segir Dýrunn Pála Skaftadóttir, stöðvarstjóri Olís á Reyðarfirði.

Lemon er þekkt fyrir samlokur sínar og safa. Á Reyðarfirði er Lemon mini sem býður upp á fjórar vinsælustu samlokurnar og safana af venjulegum seðli Lemon-keðjunnar.

„Viðtökurnar hafa verið framar okkar villtustu vonum. Það hefur verið brjálað að gera og mörg ný andlit komið inn. Það ríkir mikil gleði í húsinu meðal bæði viðskiptavina og starfsfólks sem hefur beðið eftir í þessu. Við höfum fengið að heyra úr samfélaginu að það vantaði hollan og ferskan skyndibita.“

Lemon er viðbót við matsöluna á staðnum. Matseðill Grill 66, veitingamerkis Olís, er áfram í boði en á honum eru hamborgarar, pizzur og plokkfiskur.

Tilkoma Lemon er lokahnykkurinn á endurbótum á stöðinni sem staðið hafa síðustu mánuði. Þær hafa gengið vel því aldrei hefur þurft að loka þótt vinna hafi verið í gangi.

„Það er búið að taka alla stöðina í gegn. Allar innréttingar hafa verið endurnýjaðar þannig það er orðið bjartara yfir. Í salnum var bætt við plássi fyrir að minnsta kosti tíu manns og það veitti ekki af því hér hefur verið fullt síðustu daga.“

Verslun fyrir vaktasamfélagið


Þá var bætt við verslunarhorni þar sem hægt er að ganga að nauðsynjavörum fyrir heimil utan hefðbundins opnunartíma dagvöruverslana. Olís er opið alla daga 8-22 sem skiptir máli í samfélagi eins og Reyðarfirði þar sem margir íbúar vinna í vaktavinnu.

„Við opin fyrir vaktasamfélagið. Í verslunarhorninu, eða búðinni, er úrval þeirra vara sem fólk vantar í baksturinn eða matinn á verði sem er nærri stórmarkaðsverðinu. Síðan bætist við afsláttur fyrir fólk sem notar ÓB-lykilinn.

Endurbótunum á stöðinni er lokið í bili en Dýrunn segir þær hafa orðið til þess að auka viðskiptin. „Við höfum séð stöðuga aukningu síðasta hálfa árið og nú eru ferðamennirnir að koma sterkir inn, bæði í verslunina og grillið. Breytingarnar á stöðinni eru búnar í bili en við höldum áfram að efla þjónustuna.“

Lissette Mora Roa, vaktstjóri Lemon og Dýrunn Pála Skaftadóttir, stöðvarstjóri Olís á Reyðarfirði.