Skip to main content

Olíubrák ógnaði ekki fuglum á Andapollinum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 27. sep 2023 08:33Uppfært 27. sep 2023 08:35

Lítið var hægt að gera til að bregðast við olíubrák sem sást á Andapollinum á Reyðarfirði seinni partinn í gær. Fuglum á pollinum er ekki talin hafa verið búin hætta af henni.


Seinni partinn í gær varð vart við mengunarslikju á andapollinum á Reyðarfirði. Starfsmenn frá Fjarðabyggð og slökkviliði sveitarfélagsins fóru á staðinn til að kanna mengunina, möguleg viðbrögð og rekja uppruna hennar.

Samkvæmt upplýsingum frá Fjarðabyggð voru ýmsar ráðstafanir skoðaðar í samráði við Heilbrigðiseftirlit Austurlands. Um var að ræða þunnt lag af olíu sem var það lítil að mengunarvarnabúnaður, sem er í höfninni á Reyðarfirði, hefði ekki gert neitt gagn.

Aðrar aðgerðir töldust ekki líklegar til að skila árangri. Olían rennur því til sjávar. Hún er ekki talin skaða fuglana í nágrenninu.

Olían var rakin til íbúa í nágrenninu sem hafði ekki gengið nógu vel frá opnum olíubrúsa áður en tók að rigna. Talið er að um tveir lítrar hafi runnið út í umhverfið þaðan. Sveitarfélagið vill minna íbúa á að gæta vel að hlutum sem valdið geta mengun í náttúrunni, einkum áður en veður versnar.