Skip to main content

Óljóst hvort starfsemi RÚV á Austurlandi verður efld

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 05. jan 2024 11:13Uppfært 05. jan 2024 11:27

Í nýjum þjónustusamningi menningar- og viðskiptaráðherra við Ríkisútvarpið ohf. er lögð sérstök áhersla á þjónustu við alla landsmenn og að starfsemi Ríkisútvarpsins á landsbyggðinni aukist um 10 prósent á samningstímabilinu, sem eru fjögur ár. Stefán Eiríksson útvarpsstjóri segir líklegt að gerð verði tilraun til að efla starfsemi RÚV á Suðurlandi en að horft verði til eflingar á öðrum stöðum eftir því sem tækifæri gefist. Einn fréttamaður Ríkisútvarpsins sinnir nú öllu Austurlandi og samkvæmt svörum útvarpsstjóra hafa enn sem komið er engar ákvarðanir verið teknar um að efla þá starfsstöð. 

Í umfjöllun um starfsemi á landsbyggðinni í hinum ný undirritaða samningi segir að Ríkisútvarpið leggi áherslu á þjónustu við alla landsmenn, að endurspegla skuli landfræðilegan fjölbreytileika íslensks samfélags og að Ríkisútvarpið skuli vera með starfsemi og fréttamenn í öllum landshlutum.„Víða um land eru svæðisstöðvar sem starfsfólk getur unnið frá og einnig geta ýmis störf verið unnin án staðsetningar,“ segir í samningnum í samhengi við það ákvæði að umfang starfsemi Ríkisútvarpsins á landsbyggðinni skuli aukið um 10 prósent.

Austurfrétt hafði samband við Stefán Eiríksson útvarpsstjóra og spurði hann hvaða leiðir ætti að fara til að ná því markmiði að auka umfang starfseminnar á landsbyggðinni. Var Stefán spurður hvort fyrir lægi hvar starfsemin yrði aukin og þá á hvaða sviðum, hvort horft væri til að þess að styrkja svæðisstöðvar Ríkisútvarpsins, til að mynda á Austurlandi, og fjölga þar fréttamönnum og dagskrárgerðarfólki eða hvort horft væri til þess að önnur starfsemi á borð við rekstur eða bakvinnslu aðra væri þar undir.

Stefán svaraði því til að allt kæmi til greina í þeim efnum. „En einkum eru við að horfa til fréttaþjónustu og dagskrárgerðar. Umfangsmesta starfsemi okkar í dag utan Reykjavíkur er á Akureyri, þar sem bæði starfa fréttamenn og dagskrárgerðarfólk, sem og fólk sem sinnir öðrum störfum hjá okkur. Mér finnst líklegt að við gerum aðra tilraun til þess að efla starfsemi okkar á Suðurlandi á samningstímanum, en horfum einnig til eflingar á öðrum stöðum eftir því sem tækifæri gefast.“

Einn fréttamaður Ríkisútvarpsins er starfandi á Austurlandi öllu, Rúnar Snær Reynisson.

Í samningnum kemur einnig fram að Ríkisútvarpið skuli leggja sitt af mörkum til að auka fjölbreytni í fjölmiðlun á Íslandi, á landsvísu sem og á einstökum landsvæðum. Þá segir að Ríkisútvarpið muni leita leiða „til að efla samstarf við staðbundna fjölmiðla á landsbyggðinni og auka þjónustu á landsvæðum þar sem engin eða takmörkuð fjölmiðlun er fyrir hendi.“

Útvarpsstjóri svaraði því til, aðspurður um hvernig slíkt yrði gert og hvort hafið væri samtal við svæðismiðla um samstarf, að Ríkisútvarpið væri mjög áhugasamt um að finna leiðir til að efla samstarfið. „Nákvæmar áætlanir um það hafa ekki verið unnar enda nýbúið að skrifa undir samninginn, en eitt af fyrstu skrefunum er að ræða við miðla á landsbyggðinni um hvaða möguleikar og tækifæri eru til staðar,“ sagði Stefán.