Opinber heimsókn forseta Íslands í Fjarðabyggð hafin
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, hóf þriggja daga opinbera heimsókn sína í Fjarðabyggð fyrr í morgun en forsetinn mun í ferð sinni heimsækja alla kjarna sveitarfélagsins og kynnir sér starfsemi fjölda stofnana og fyrirtækja.
Forsetinn lenti rétt fyrir klukkan níu í morgun og frá Egilsstaðaflugvelli var haldið rakleitt á bæjarskrifstofur Fjarðabyggðar á Reyðarfirði þar sem hann átti fund með starfsfólki og kjörnum fulltrúum. Þar höfðu margir áhuga á að heyra um krýningu Karls Bretakonungs um liðna helgi en þar var forsetinn viðstaddur ásamt eiginkonu sinni Elizu Reid. Forsetafrúin er þó ekki með í heimsókninni í Fjarðabyggð að þessu sinni.
Forsetinn heimsækir svo Neskaupstað og kynnir sér afleiðingar snjóflóðanna sem þar féllu í síðasta mánuði auk þess að koma við í Umdæmissjúkrahúsi Austurlands, Síldarvinnslunni og samvinnuhúsið Múlann. Að því loknu stígur forsetinn og hans fylgdarlið um borð í bát sem flytur hann inn í Mjóafjörð en þar verður kaffisamsæti með íbúum síðdegis.
Á morgun heldur forsetinn svo til Breiðdalsvíkur og Stöðvarfjarðar, kemur við á Fáskrúðsfirði áður en þeim degi lýkur á Eskifirði með hátíðarsamkomu í Menningarmiðstöðinni. Sú samkoma öllum opin.
Á miðvikudaginn skoðar Guðni svo álver Alcoa Fjarðaáls og leik- og grunnskóla Reyðarfjarðar áður en hann kynnir sér starfsemi Laxa fiskeldis, netagerðarinnar Egersund og heilsar upp á íbúa hjúkrunarheimilisins á Eskifirði. För hans lýkur þann dag á bænum Sléttu í Reyðarfirði en þar er sauðburður í fullum gangi.