Skip to main content

Orkusjóður efldur til að liðka fyrir rafvæðingu skipa og hafna

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 24. apr 2023 14:20Uppfært 24. apr 2023 14:35

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- orku- og loftslagsráðherra, segir að sérstakur Orkusjóður hafi verið stórefldur upp á síðkastið og muni nýtast vel sem eitt helsta tæki stjórnvalda til að liðka fyrir rafvæðingu hafna og skipa landsins.

Þetta er meðal þess sem fram kom í svari ráðherra á Alþingi við fyrirspurn Eydísar Ásbjörnsdóttur, varaþingmanns Samfylkingarinnar í norðausturkjördæmi. Eydís vildi bæði vita hvernig ráðherra hygðist fylgja eftir orkustefnu til ársins 2050 varðandi rafvæðingu skipaflotans og hafna landsins en jafnframt hver afstaða ráðherrans væri til að hækka framlög til sveitarfélaga vegna innviðauppbyggingar við hafnir vegna orkuskiptanna.

Benti ráðherra á að vegna orkuskiptanna væri ljóst að töluverða orku þyrfti til aukalega frá því sem nú er hvort sem um væri að ræða almenna raforkuframleiðslu eða framleiðslu rafeldsneytis. Alls orkuþörf árið 2040 gæti numið sjö teravattsstundum.

Til að tryggja framgang orkuskipta er einnig þörf á þróun og framleiðslu vetnis eða rafeldsneytis. Ísland er í kjörstöðu til að framleiða grænt vetni og rafeldsneyti með því að nýta endurnýjanlegar orkuauðlindir sínar. Samkeppnishæft raforkuverð, framboð á grænni grunnorku og 100% grænt raforkukerfi gerir Íslendingum kleift að framleiða grænt vetni á sjálfbæran hátt og á samkeppnishæfu verði. Búist er við því að rafeldsneyti, líkt og e-metanól, e-ammoníak og e-dísill, muni gegna stóru hlutverki við orkuskipti á hafi.  Orkusjóður hefur verið stórefldur og mun áfram nýtast sem tæki stjórnvalda til að stuðla að orkuskiptum, fyrir umferð um landið, hafið eða í lofti. Stutt er við verkefni sem eru innviða-, eldsneytis- eða tækjaverkefni sem strax við notkun draga úr jarðefnaeldsneytisbrennslu. Undanfarin ár hefur flokkur styrktarverkefna sem falla undir orkuskipti í haftengdri starfsemi, þ.m.t. hafnartengingar og skip, farið stækkandi.

Þá staðfesti Guðlaugur að í gegnum fyrrnefndan Orkusjóð hafi aukinn stuðningur verið veittur sem mótframlag til verkefna vegna innviðauppbyggingar við hafnir og þar með talið til styrkingar raftenginga í höfnum.

Á Seyðisfirði meðal annars hefur verið unnið að því um hríð að skip við bryggju tengist rafmagni í landi í stað þess að keyra mengandi olíu um borð.