Skip to main content

Orkustofnun heimilar rannsóknir vegna virkjunar í Gilsá á Jökuldal

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 15. júl 2025 13:19Uppfært 15. júl 2025 13:21

Orkustofnun hefur gefið Arctic Hydro leyfi til að hefja rannsóknir vegna áforma fyrirtækisins um gerð vatnsaflsvirkjunar í Gilsá á Jökuldal. Gert er ráð fyrir að virkjunin yrði allt að 9,9 MW.


Einfaldasta leiðin til að útskýra staðsetningarnar sem hér um ræðir er að segja að Gislá er brúaða áin sem fyrst er farið yfir eftir að keyrt er út af Hringveginum til að fara inn í Stuðlagil. Rannsóknaleyfið nær yfir þann hluta árinnar sem nær frá fjallsbrún, nokkurn veginn frá vegamótum gamla Hringvegarins niður af Jökuldalsheiði og núverandi vegar, og þangað sem hún fellur í Jökulsá.

Áætlanir Arctic Hydro ganga út á að stífla Gilsá í um 460 metra hæð, um 700 metrum neðan við ármót hennar og Víðidalsár. Þar verður til um 15 hektara lón.

Úr því verður lögð pípa niður Arnórsstaðamúla niður undir Jökulsá þar sem stöðvarhúsið verður. Með því fæst um 260 metra fallhæð. Sjálf þrýstipípan verður tæplega 6 km löng.

Fram kemur í gögnum sem fylgja leyfinu að eftir sé að leysa tengingar við raforkukerfið, en í byggðalínuna eru 15 km. Í þessum fyrstu drögum er gert ráð fyrir að leggja þangað jarðstreng.

Náttúrufræðistofnun varar við raski á fossum og votlendi


Rannsóknaleyfið gildir til loka árs 2029. Á þeim tíma er gert ráð fyrir að mæla rennsli, vinna umhverfisrannsóknir og athuga hagkvæmni virkjunarkostarins. Þegar liggur fyrir frumathugun.

Í umsögn sinni við vinnslu leyfisins benti Náttúrufræðistofnun á að tveir fossar í gilinu njóti sérstakrar verndar. Þá sé Jökuldalsheiði við gilið að hluta til á náttúruminjaskrá vegna ferskvatnsvistgerða.

Ætlast er til að Arctic Hydro haldi raski vegna rannsókna í lágmarki. Því ber að fjarlægja öll mannvirki eftir rannsóknir á sinn kostnað og með sem minnstum sjáanlegum ummerkjum.

Arctic Hydro hefur undanfarin ár sérhæft sig í gerð minni virkjana. Félagið reisti virkjun í Þverá í Vopnafirði sem gangsett var um áramótin 2022/23. Það hefur að undanförnu unnið að leyfismálum vegna virkjana í Geitdalsá í Skriðdal og Hamarsá í Hamarsfirði.

Við Gilsá á Jökuldal. Mynd úr safni.