Orsakir strands tankskips í Fáskrúðsfirði ókunnar

Alls óljóst er hvers vegna tankskipið Key Bora tók skyndilega 90 til 100 gráðu beygju í átt að landi og strandaði tímabundið í fjörunni eftir að hafa lagt úr höfn í Fáskrúðsfirði örskömmu áður. Skipið náðist að losa fyrir eigin vélarafli á innan við klukkustund.

Björgunarsveitin Geisli var ræst út þegar í stað þegar stórt tankskipið fór upp í fjöruna nokkur hundruð metrum frá bænum auk þess sem áhöfn togara í höfninni var ræst út til öryggis ef þyrfti að koma mörgum til bjargar. Til þess kom þó ekki að sögn Grétars Helga Geirssonar, formanns björgunarsveitarinnar Geisla á Fáskrúðsfirði.

„Það kom góðu heilli ekki til okkar kasta þegar allt kom til alls nema að hjálpa til við að lóðsa skipið af staðnum og í höfn aftur eftir atvikið. Það er enn á huldu samkvæmt skipstjóra Key Bora hvað þarna gerðist. Engin bilun fannst við leit og kafarar sem skoðuðu botn skipsins í kjölfarið fundu ekkert markvert. En skipið tók víst alveg fyrirvaralaust duglega beygju beint upp í land rétt fyrir neðan Kappeyrina hér í firðinum. Skipstjórinn setti umsvifalaust allt í bakk sem þýddi að skipið beygði enn frekar og tók svo niður í kjölfarið.“

Allt leystist þó farsællega. Skipverjar tæmdu ballast framan í skipinu og dugði það til að losa skipið af strandststaðnum.

„Við fylgdum því svo til hafnar þar sem menn fóru yfir þetta auk þess sem kafarar voru sendir til að skoða botn og skrúfu þess en það hélt svo för sinni áfram að því loknu því ekkert athugavert fannst.“

Mynd frá björgunarsveit Geisla af Key Bora á strandstaðnum á fimmtudaginn var. Allt fór vel að lokum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.