Skip to main content

Þorsteinn í Eskju: Við fréttum um mengunarslysið frá Heilbrigðiseftirlitinu

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 25. nóv 2010 08:21Uppfært 08. jan 2016 19:21

eskifjordur_eskja.jpgÞorsteinn Kristjánsson, forstjóri Eskju á Eskifirði, segir að stjórnendur fyrirtækisins hafi ekki vitað um mengunarslys í fiskimjölsverksmiðju fyrirtækinsins fyrr en þeir fengu tilkynnningu um það frá yfirvöldum. Verktaki sá um löndunina. Eskja hefur tekið á sig kostnað vegna aðgerða sveitarfélagsins Fjarðabyggðar í sumar.

 

„Það var HAUST sem tilkynnti okkur um slysið,“ sagði Þorsteinn í samtali við Agl.is og vísar þar til yfirstjórnenda fyrirtækisins. „Það er eins og verktakinn (Tandraberg) hafi ekki áttað sig á alvarleika málsins eða verið nógu meðvitaður um hvað gerðist.“

Í byrjun júlí var blóðvatni úr fiskimjölsverksmiðju, þar sem verið var að landa úr togara, dælt inn á neysluvatnslögn Eskifjarðarbæjar. Tæp vika leið áður en alvarleiki málsins varð ljós og var íbúum þá gert að sjóða neysluvatn í tíu daga. Tæpir tíu tímar liðu frá því slysið varð þar til yfirvöldum var tilkynnt um það, þá af starfsmanni Sundlaugarinnar á Eskfirði.

Þorsteinn segir að gripið hafi verið til ráðstafana hjá Eskju til að atvik sem þetta endurtaki sig ekki. Vatn af bæjarlögninni var tekið inn á tanka hjá Eskju og síðan dælt út í skipið til að bleyta upp í hráefninu áður en því var dælt í land. Mismunur á þrýstingi varð til þess að blóðvatnið fór inn á neysluvatnslögnina. „Við tökum ekki lengur úr bæjarlögninni inn á tankana.“

Í greinargerð Heilbrigðiseftirlits Austurlands og sveitarfélagsins Fjarðabyggðar um  málið er velt upp þeim möguleika að þeir sem vanræki tilkynningaskyldu í svona málum séu sektaðir. Þorsteinn segir Eskju ekki hafa verið beitta slíka úrræðum.

„Við höfum engar sektir fengið en við sögðum strax að við tækjum á okkur þann kostnað sem af þessu hlytist og við höfum borgað þá reikninga sem bærinn hefur sent okkur.“