Ósammála um þörfina á hafnarframkvæmdum á Vopnafirði
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 13. maí 2025 11:10 • Uppfært 13. maí 2025 11:10
Minni- og meirihluti sveitarstjórnar Vopnafjarðarhrepps eru ósammála um þörfina á að ráðast að svo stöddu í lengingu löndunarbryggju og meðfylgjandi verk á næstunni. Minnihlutinn lagði til að fresta framkvæmdum og nýta fjármunina í aðra innviði en meirihlutinn vill standa við þær samninga og áætlanir sem gerðar hafa verið.
Framkvæmdirnar eiga sér nokkurn aðdraganda, helst þann að Brim áformaði að byggja enn frekar upp aðstöðu sína. Loðnubrestur tvö ár í röð hefur frestað því.
Í fyrra var búið að bjóða út verkið og var ráðist í að kaupa stál í bryggjuna. Í byrjun þessa árs var samið við verktakann Hagverk um að lengja framkvæmdatímann. Með því var vonast til að ná niður kostnaði með samfloti við fleiri verkefni á Norður- og Austurlandi.
Lenging löndunarbryggju á Vopnafirði er umfangsmikið verk. Áætlaður heildarkostnaður fer nærri einum milljarði króna þegar allt er talið. Ríkið í gegnum Vegagerðina borgar 60% á móti 40% framlagi Vopnafjarðarhrepps.
Vilja nýta peningana í aðrar framkvæmdir
Á fundi sveitarstjórnar í apríl lagði minnihluti Vopnafjarðarlistans tillögu um að óskað yrði eftir viðræðum við Vegagerðina og Hagtak um að endurskoða samningana. Í greinargerð minnihlutans segir að þær forsendur sem sveitarstjórn var sammála um þegar varið var af stað í vegferðina fyrir um fjórum árum séu brostnar. Gagnrýni er sett fram á sveitarstjóra fyrir að hafa skrifað undir samninga í fyrrasumar og því haldið fram að það hafi verið án aðkomu sveitarstjórnar.
Í september í fyrra hafi Brim tilkynnt að ákvörðun um nýja uppsjávarvinnslu væri frestað um þrjú ár, meðal annars vegna óvissu um loðnuveiði. Nú bætist við að fyrirtækið telji breytingu á veiðigjöldum hafa áhrif á fjárfestingar útgerðarfyrirtækja.
Vopnafjarðarlistinn vill því skoða möguleikann á að nýta fjármuni sveitarfélagsins frekrar í „aðkallandi endurbætur og uppbyggingu annarra innviða.“ Dæmi eru tekin um viðhald gatna, gerð göngustíga og gangstétta, viðhald fasteigna, uppbyggingu miðbæjar, endurbætur skólalóðar, endurbætur sundlaugar, jarðhitaleit og uppbyggingu og endurbætur á leiguhúsnæði fyrir aldraða.
Ekki sjálfgefið að stuðningur ríkisins standi alltaf til boða
Tillagan var felld með atkvæðum meirihluta Framsóknarflokks og óháðra. Í bókun segir að búið sé að undirbúa verkið og samþykkja í fjárhagsáætlunum enda sé ekki sjálfgefið að stuðningur ríkisins standi aftur til boða verði hætt við framkvæmdina. Þar segir að hlutur sveitarfélagsins nemi, samkvæmt núverandi áætlun, rúmum 300 milljónum króna. Sá kostnaður eigi ekki að hafa veruleg áhrif á aðra uppbyggingu innviða í sveitarfélaginu.
Enn fremur er það álit framboðsins að ekki sé réttlætanlegt að hætta alfarið við framkvæmdina, eins og það telur minnihlutann hafa gefið í skyn. Slíkt hefði neikvæð áhrif á framtíðarsýn og þróun hafnarsvæðisins og möguleika á fjölbreyttri atvinnusköpun á staðnum. Þess vegna skipti máli að staðið verði við fyrri ákvarðanir og tryggt að hafnarframkvæmdirnar fari af stað þegar aðstæður leyfa. Áætlað er að framkvæmdir fari í gang af alvöru árið 2026.