Skip to main content

Ósáttur að einungis blindir og sjónskertir njóti fjárstuðnings vegna hjálparhunda

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 05. maí 2025 09:54Uppfært 05. maí 2025 10:13

Það eru fleiri einstaklingar með fötlun en blindir eða sjónskertir sem reiða þurfa sig á þjálfaða hjálparhunda til að komast gegnum daginn og lífið með góðu móti. Það hins vegar reyndin að einungis þeir einstaklingar njóta ríkisstuðnings vegna hjálparhunda.

Fatlaður einstaklingur á Seyðisfirði neyðist líklega til að greiða um fimm milljónir króna úr eigin vasa til að fá nýjan tryggan þjálfaðan hjálparhund sér til fulltingis og félagsskapar. Reglur gera einungis ráð fyrir að blindir eða sjónskertir þurfi ekki að greiða kostnað af öflun og þjálfun slíkra hunda.

Umræddur aðili er Arnar Klemensson á Seyðisfirði. Hann fæddist með klofinn hrygg auk þess að vera flogaveikur og hefur alla tíð reitt sig að stórum hluta til á góða aðstoð og ekki síst aðstoð hunda gegnum tíðina. Kom meðal annars fram í viðtali við Arnar í Austurglugganum á síðasta ári að hundar hans hafa ítrekað veitt honum lífsbjörg með látum og gelti þegar allt fór á versta veg hjá Arnari. Það fyrir utan að veita ýmis konar aðra hjálp fyrir utan hreinan og beinan félagsskap.

Hefur hann undanfarið leitað aðstoðar og hafa hingað til þrír aðilar veitt honum styrki til að greiða fyrir góða formlega þjálfun hjálparhunds en sú kennsla fer jafnan fram á Ísafirði. Kostnaður við slíka kennslu hleypur á milljónum króna sem Arnar ræður illa við.

„Það er ekkert að gerast með þetta mál mitt. Ég tók eftir að Inga Sæland og hennar fólk talaði um fyrir áramótin að breyta þessu fyrirkomulagi svo fleiri njóti slíkrar fjárhagsaðstoðar og ég hef fengið aðstoð frá nokkrum einstaklingum til að vekja athygli á þessu. Sjálfur þurfti ég að hætta við fulla þjálfun hundsins því hann stóðst ekki kröfur þegar til kom. Hjálparhundar mega ekki missa sig í neinum kringumstæðum en þessi gerði það á tímapunkti svo ég þarf að endurskoða dæmið.“

Arnar með hundinn Sprota sem var honum mikil hjálp og lífsbjörg í mörg ár en Sproti dó ekki löngu eftir að þessi mynd var tekin. Mynd AE