Óska eftir stækkun kirkjugarðs Eskfirðinga
Sóknarnefnd Eskifjarðarkirkju hefur farið þess á leit við Fjarðabyggð að kirkjugarður bæjarbúa verði stækkaður frá því sem nú er. Erindið fengið góð viðbrögð þó ekki hafi formleg svör né samþykki borist nefndinni enn sem komið er.
Sjaldan er ráð nema í tíma sé tekið og það var meginhugmynd sóknarnefndar þegar erindið um stækkun kirkjugarðsins var sent sveitarfélaginu fyrr í sumar að sögn Evu Drafnar Sævarsdóttur, formanns nefndarinnar.
„Það er ekki svo að garðurinn sé orðinn fullur því enn er þar pláss til nokkurra ára til viðbótar. En við vildum horfa langt fram í tímann til að lenda ekki í neinum vandræðum á neinum tímapunkti svo að við óskuðum eftir að garðurinn fengi aðeins meira pláss en nú er skipulagt og þess vegna sendum við þetta erindi á sveitarfélagið.“
Hve mikið skal stækka kirkjugarðinn segir Eva samkomulagsatriði en nefndin sé bókstaflega að horfa til næstu áratuga með beiðni sinni. Pláss sé fyrir hendi fyrir útvíkkun garðsins án vandræða.
„,Það hafa svo sem engin formleg svör borist enn sem sennilega er vegna sumarfría starfsfólks og slíks en vel var tekið í beiðnina og ég bjartsýn á að þetta gangi allt eftir. Það vantar enn nokkuð upp á að kirkjugarðurinn okkar fyllist en við í nefndinni erum að horfa til langs tíma og þá meina ég til næstu áratuga. Það betra að hafa vaðið fyrir neðan sig í þessum efnum og við viljum ekki lenda í því að hann fyllist áður en hægt er að bregðast við með sómasamlegum hætti.“