Skip to main content

Óska fulltingis Fjarðabyggðar að fagna stórafmæli Lystigarðsins í Neskaupstað

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 18. ágú 2023 13:46Uppfært 18. ágú 2023 13:51

Þann 2. ágúst á næsta ári fagnar Lystigarðurinn í Neskaupstað 90 ára afmæli og kvenfélagskonur þar í bæ vilja fyrir alla muni fagna þeim áfanga með bravúr.

Þó garðurinn sé í dag í eigu og á forræði sveitarfélagsins var hann stofnaður á sínum tíma af kvenfélagskonum í bænum sem lengi vel sáu um umhirðu garðsins sjálfar og fyrir eigið fé.  Enn þann dag í dag er sérstök Lystigarðsnefnd rekin innan kvenfélagsins Nönnu.

Sú nefnd, sem Helga Magnea Steinsson leiðir, hefur óskað fulltingis sveitarfélagsins við að koma á fót sérstakri afmælisnefnd sem fyrst en sú nefnd myndi skipuleggja afmælið með myndarlegum hætti þegar þar að kemur.

„Við höfum ekki fengið nein formleg svör enn frá Fjarðabyggð en vonumst eftir góðum viðtökum við erindinu. Bæjarbúum þykir held ég flestum vænt um þennan garð og svona stóráfanga bera að halda upp á með einhverju móti. Garðurinn var á sínum tíma formlega opnaður 2. ágúst og afmælið þyrfti að vera í kringum þá dagsetningu að okkar mati.“

Síðastliðið haust sendi kvenfélagið harðort skeyti til sveitarstjórnar þar sem úrbóta var krafist í garðinum eins og Austurfrétt fjallaði um á þeim tíma og lesa má um hér. Aðspurð hvort sveitarfélagið hafi sýnt viðbrögð segir Helga að hún hafi heyrt að mannekla komi í veg fyrir að bæjarstarfsmenn færi garðinn í viðunandi horf.

„Kannski má, ef Fjarðabyggð sýnir afmælisnefndinni áhuga, taka betra samtal saman og hugsanlega er þetta stórafmæli næg ástæða til að taka til hendinni í þessum ágæta garði okkar.“

Samþykkt var á síðasta fundi bæjarráðs Fjarðabyggðar að tilnefna Helgu Björk Einarsdóttur, garðyrkjustjóra, í afmælisnefndina auk eins annars aðila frá sveitarfélaginu.

Í Neskaupstað hefur verið til staðar fallegur lystigarður í hartnær 90 ár sem er áfangi sem ber að fagna. Mynd Visit Austurland