Skip to main content

Óska tilboða í fyrsta áfanga hreinsistöðvar að Melshorni

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 15. apr 2025 13:55Uppfært 15. apr 2025 14:00

Auglýst hefur verið, af hálfu HEF-veita, eftir tilboðum verktaka í fyrsta áfanga byggingar tveggja hæða hreinsistöðvar fráveitu á Egilsstöðum að Melshorni en bjóðendur hafa aðeins réttan mánuð áður en verkið skal vera hafið.

Töluvert hefur verið fjallað um nýja hreinsistöð að Melshorni síðustu árin en sú hreinistöð skal fullhreinsa allt skólp frá íbúðabyggð á Egilsstöðum og koma í staðinn fyrir þrjár minni hreinsistöðvar sem fyrir eru en duga ekki til.

Staðsetningin fer fyrir brjóst margra enda tiltölulega stutt frá byggðinni eins og sést á meðfylgjandi loftmynd en þar er hreinsistöðin merkt með bláu.

Áætlaður kostnaður er líka drjúgur ásteytingarsteinn því ráðgjafar áætluðu að heildarkostnaður við stöðina yrði vart undir einum milljarði króna. Það mat miðaðist við stöðuna í byrjun árs 2023 og er skýringin á hvers vegna HEF-veitur bjóða verkið út í áföngum.

Auglýsingin nú tekur til jarðvinnu og byggingar tveggja hæða húss sem verður 160 fermetrar að grunnfleti. Ennfremur skal í þessum áfanga loka byggingunni með gluggum, hurðum og þakeiningum og setja upp loftræstingu, lagnir og ljúka frágangi innanhúss.

Áhugasamir aðilar hafa skamman fyrirvara. Tilboð skal opna þann 5. maí næstkomandi að tæpum þremur vikum liðnum og sjálft verkið skal hefjast þann 15. maí og vera lokið um miðjan desember.