Skip to main content

Óskað eftir áhugasömum í heimastjórnir Múlaþings

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 27. apr 2022 15:40Uppfært 27. apr 2022 15:48

Ásamt því að kjósa til sveitarstjórnar þann 14. maí næstkomandi þarf jafnframt að kjósa einstaklinga í þær fjórar heimastjórnir sem falla undir sameinað Múlaþing en áhugasömum gefst nú færi á að kynna sig og helstu stefnumál gegnum vef sveitarfélagsins.

Heimastjórnirnar undir Múlaþingi eru fjórar talsins: á Djúpavogi, Fljótsdalshéraði, Borgarfirði eystra og Seyðisfirði en þeim er fyrst og fremst ætlað að stytta boðleiðir almennings og tryggja áhrif þeirra að ákvörðunum sem snerta þeirra nærumhverfi.

Heimastjórnirnar sinna þeim störfum sem sveitarstjórn felur þeim í hendur og snýr að viðkomandi byggðahluta. Algeng verkefni heimastjórna varða deiluskipulags- og umhverfismál, menningar- og landbúnaðarmál auk umsagna um staðbundin málefni og leyfisveitingar. Kjörgengir í heimastjórnir eru allir íbúar á kjörskrá í Múlaþingi en þó hver og einn aðeins gjaldgengur í sínu heimahéraði. Greitt er fyrir fundarsetu í heimastjórnum.

Múlaþing hefur nú opnað sérstakan vef þar sem áhugasömum gefst færi á að kynna sig og sínar helstu áherslur en á þeim vef verður hægt að finna alla þá sem gefa kost á sér til góðra verka á einum stað vel fyrir kosningarnar um miðjan maí.

Mynd: Frá Seyðisfirði. Ein heimastjórn af fjórum alls fer með málefni þess bæjar fyrir hönd Múlaþings. Mynd GG