„Óskiljanleg vegferð“ innviðaráðuneytis gagnvart Fljótsdal

„Sameining sveitarfélagsins við annað eða önnur sveitarfélög myndi í senn skapa tækifæri til að efla þjónustu við íbúa , auka fjárhagslega sjálfbærni og stuðla að frekari uppbyggingu innan sveitarfélagsins til framtíðar. Jafnframt myndi skapast tækifæri til aukinna áhrifa íbúa á mótun nærþjónustu.“

Ofangreint er niðurlag sérstakrar umsagnar innviðaráðuneytisins um það álit sveitarstjórnar Fljótsdalshrepps að hreppurinn verði áfram sjálfstæð sveitarstjórnareining og fari ekki í sæng með einu eða öðrum sveitarfélögum. Krafa var um slíkt álit af hálfu ráðuneytisins í því skyni að upplýsa alla íbúa Fljótsdalshrepps um nákvæmlega hvaða þjónustu sveitarfélagið væri að veita. Það ráðuneyti er í forsvari fyrir þá kröfu ríkisvaldsins að öll sveitarfélög geti innt af hendi lögbundnum verkefnum sveitarfélaga svo sómi sé að að mati ráðuneytisins.

Núverandi sveitarstjórnarlög kveða sérstaklega á um það markmið ríkisvaldsins að ekkert sveitarfélag verði í framtíðinni með færri en þúsund íbúa. Rökin fyrir því að með þeim hætti eigi sveitarfélögin auðveldara með að sinni lögbundinni þjónustu en undir þeim hatti eru einir 150 þjónustuþættir á borð við rekstur grunnskóla og félagsþjónustu svo aðeins tvö dæmi séu tekin. Fljótsdalshreppur kaupir nú, og hefur gert um langa hríð, ýmsa þá þjónustu gegnum Múlaþing sem innviðaráðuneytið telur nauðsynlega í hverju sveitarfélagi fyrir sig.

Innviðaráðuneytið telur upp nokkrar breytur í áliti sínu sem máli skipta að þeirra mati og gerir kröfu til Fljótsdalshrepps að sveitarstjórn taki tvær umræður um hvort hefja eigi sameiningarviðræður við önnur sveitarfélög. Þar þess krafist að „sé tekin ákvörðun um að hefja ekki slíkar viðræður geta minnst 10% atkvæðabærra íbúa óskað almennrar atkvæðagreiðslu um þá ákvörðun sveitarstjórnar.“

Fyrsta umræðan af tveimur fór fram í vikunni hjá sveitarstjórn Fljótsdals og sú síðari á dagskrá á næstu vikum. Helgi Gíslason, sveitarstjóri, er ekkert að skafa af hlutunum aðspurður um greiningu innviðaráðuneytisins sem hann kallar óskiljanlega vegferð. Hann tekur dæmi frá Noregi þar sem þarlendir hafa hafist handa við að minnka sveitarfélagseiningarnar á stöku stað þvert á það sem hér er verið að gera og þá staðreynd að bæði í Noregi og Finnlandi má finna býsn sveitarfélaga af sömu stærðargráðu og Fljótsdalshreppur. Málið snúist ekki endilega um stærð eða smæð heldur öllu frekar þá staðreynd að tekjuskipting milli ríkis og sveitarfélaga er óréttlát og það komi sannarlega niður á þeirri þjónustu sem sveitarfélög geti veitt sínum íbúum.

„Eftir því sem ég kemst næst er það einmitt út af því að svona sameiningar draga svo mikið úr þjónustu og í kjölfarið verða íbúarnir auðvitað bullandi óánægðir. Þeir vilja margir fá sitt litla sveitarfélag aftur til að fá sömu þjónustu og áður. Það er þekkt breyta að það dregur alltaf úr þjónustu á jaðarsvæðum og þá flytur fólk brott. Þetta blasir til dæmis við hér því íbúafjöldi á Egilsstöðum jókst úr 1600 í 2600 þegar Fljótsdalsvirkjun og álverið tóku til starfa (og þegar flestar sameinginarnar urðu) en engir fjölgun hefur orðið neins staðar annars staðar í þessu gömlu hreppum. Þeir annaðhvort standa í stað eða fólki fækkar.“

Helgi segir athyglisvert að umsögn ráðuneytisins geri athugasemdir við þjónustusamninga þá sem Fljótsdalshreppur er með við Múlaþing varðandi ýmsa þjónustu. „Þeir segja að með þeim missum við alla stjórn á þeim málaflokkum. Það skýtur skökku við því við gerum hér reglulega slíka samninga um fjölmargt annað eins og snjómokstur. Við erum ekkert að byggja upp einhverja sérstaka snjómokstursdeild hjá okkur. Kjarninn er sá að ef við fáum ekki þá þjónustu sem við viljum þá auðvitað segjum við samningnum upp. Þvert á móti held ég að það sé betri stjórn á þessu hjá okkur en mörgum öðrum gegnum þessa sömu þjónustusamninga.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.