Skip to main content

Óttast að auknar strandveiðar grafi undan útgerðum sem tryggi atvinnu árið um kring

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 16. apr 2025 10:52Uppfært 16. apr 2025 10:58

Bæjarráð Fjarðabyggðar gagnrýnir áform ríkisstjórnarinnar um að tryggja hverjum strandveiðibát 48 daga til veiða. Til þess þurfi aukinn kvóta sem komi frá annarri útgerð sem skili meiru til samfélagsins.


Þetta kemur fram í umsögn sem Fjarðabyggð sendi inn um áformaðar breytingar á strandveiðum en frestur til þess rann út í mars. Ný ríkisstjórn hefur lagt til fjórar meginbreytingar á veiðunum. Í fyrsta lagi að öllum verði tryggður réttur til að veiða í 48 daga, í öðru lagi að umsóknarfrestur um leyfi verði skilyrtur við 15. apríl, að aflaupplýsingum sé skilað stafrænt til Fiskistofu og sá sem rói sé meirihlutaeigandi báts.

Alls bárust 95 umsagnir og snúast flestar þeirra um eignarhaldið eða dagafjöldann. Fjarðabyggð var eina austfirska sveitarfélagið sem skilaði inn umsögn og almennt er fáar umsagnir að sjá frá austfirskum smábátasjómönnum, útgerðum eða hagsmunasamtökum þeirra.

Ekki ljóst hvaðan aukinn kvóti verði fenginn


Aðalgagnrýni Fjarðabyggðar beinist að því að ekki sé ljóst hvernig eigi að tryggja aflaheimildir þannig að markmiðið um að hver bátur geti verið 48 daga á veiðum náist. Umsögn Fjarðabyggðar er í takt við bókun Samtaka sjávarútvegsveitarfélaga sem gagnrýnir að ekki sé ljóst hvaðan aukinn kvóti til strandveiða fáist. Áhrifin verði misjöfn á byggðarlög eftir því hvaðan hann verði tekinn, úr byggðakvóta eða almenna kerfinu. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi gagnrýna að heimildir til strandveiða séu auknar á sama tíma og þorskkvóti sé skorinn niður.

Bæjarráðið segir að núverandi fiskiveiðistjórnunarkerfi hafi almennt reynst vel og skilað arði í formi veiðigjalda auk þess sem stuðningsaðgerðir, svo sem byggðakvóti, hafi stutt við stöðuga atvinnu og mannlíf í sjávarbyggðum. Þeim verði því að halda áfram.

Áhersla á veiðar sem skapi heilsársstörf


Hvað strandveiðarnar varðar þurfi að tryggja að aukin verðmætasköpun af þeim skili sér í nærsamfélaginu. Bæjarráðið bendir á að það skapi ekki útsvarstekjur ef sjómenn hafi ekki lögheimili í viðkomandi byggðarlagi árið um kring. Þess vegna eigi að meta áhrif breytinga á strandveiðum á tekjur sveitarfélaga. Bæjarráðið kveðst þess vegna ekki fylgjandi auknu vægi strandveiða á kostnað fyrirtækja sem stundi veiðar og vinnslu árið um kring.

Vilhjálmur Árnason spurði Hönnu Katrínu Friðriksdóttur, atvinnumálaráðherra, út í útsvarstekjur eftir sveitarfélögum af strandveiðum. Í svari ráðherrans kemur fram að þær tölur séu ekki til í ráðuneytinu. Hins vegar kemur þar fram að strandveiðar hafa dregist verulega saman í Fjarðabyggð, líkt og á Austurlandi síðustu ár, enda fyrri reglubreytingar hyglað öðrum svæðum á kostnað Austfjarða. Í svarinu kemur fram að í fyrra hafi 19 strandveiðibátar gert út frá Fjarðabyggð en þeir voru 58 árið 2016.

Vilja tryggja að fjölskyldur geti róið saman


Atli Vilhelm Hjartarson, strandveiðisjómaður af Fljótsdalshéraði, sendir inn umsögn þar sem hann þakkar fyrir viðleitni til að breyta kerfinu þannig hægt verði að stunda strandveiðar í júlí og ágúst þegar betri fiskur sé kominn austur fyrir land. Hann veltir því þó upp hvort rétt sé að skylda þá sem síðar fari á veiðar til að greiða leyfisgjald strax í apríl með umsóknarfresti þá.

Atli er meðal þess sem óttast að ákvæðið um 51% eign í báti sé íþyngjandi fyrir fólk sem sé að byrja eða fjölskyldur sem eigi bát saman. Hann spyr hvort betra sé að krefjast þess að heimili útgerðar, lögheimili eigenda og skipstjóra og skráning báts sé á því svæði þar sem hann hefur veiðileyfi.

Sem fyrr segir snúa flestar athugasemdirnar að þessu eigendaákvæði. Landssamband smábátasjómanna segir ánægjulegt að reynt sé að koma til móts við kröfur sambandsins um að hver geri út sinn bát en leggur til viðbótarákvæði sem geri einstaklingum úr sömu fjölskyldu að róa saman. Fiskistofa og Landhelgisgæslan ítreka að skráning sé skýr til að auðvelda eftirlit.