Óttast að ýmis uppbygging flytjist erlendis frá Austurlandi vegna óvissu um orkumál
Ótti er til staðar bæði hjá bæjarstjórn Fjarðabyggðar og sveitarstjórn Fljótsdalshrepps að verði mikið meiri dráttur á að Alþingi afgreiði ýmsa lykilþætti er varða orkumál til framtíðar sé hætta á að ýmis fyrirhuguð uppbygging flytjist hreint og beint úr landi.
Samþykkt var á sameiginlegum fundi sveitarfélaganna tveggja fyrir skemmstu að skora á Alþingi að ljúka fjölmörgum vafamálum er snúa að orkumálum sem allra fyrst. Botn í þau mál sé grunnforsenda þess að hægt verði að halda áfram uppbyggingu á Austurlandi öllu.
Mikið er undir hjá sveitarfélögum á Austurlandi að skýrar stefnur í orkumálum til framtíðar liggi fyrir og þar ekki síst í Fljótsdal og Fjarðabyggð. Vindorka frá Fljótsdal skal knýja sérstakan orkugarð sem reisa skal á Reyðarfirði og framleiða vetni sem talið er ákjósanlegur kostur til að knýja fiski- og flutningaskip í framtíðinni í stað svartolíu sem flest skip notast við. Ekkert annað eldsneyti veldur meiri mengun en svartolía og því talið til mikils að vinna að breyta því.
Þrennt er sérstaklega tilgreint í bókun sveitarfélaganna sem brýn þungavigtarmál. Þar fyrst að afgreidd verði skýr stefna um uppbyggingu vindorku á Íslandi. Í öðru lagi að sveitarfélögunum verði tryggður eðlilegur arður af raforkuframleiðslu í nærhéraði og í þriðja lagi að stjórnvöld tryggi skýrt lagaumhverfi og innviði fyrir fyrirhugaðan orkugarð á Reyðarfirði. Það skipti sköpum því bæði sveitarfélögin geri ráð fyrir talsverðri húsnæðisuppbyggingu því samhliða. Jafnframt sé ljóst að virkja þurfi meira enda aukin orkuöflun lykilforsenda aukinnar verðmætasköpunar í fjórðungnum.