Skip to main content

Óttast áhrif laxeldis í Seyðisfirði á villta laxastofna

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 02. feb 2022 17:09Uppfært 02. feb 2022 17:15

Skipulagsstofnun óttast að fyrirhugað laxeldi í Seyðisfirði geti haft óafturkræf, neikvæð áhrif á villta fiskistofna í nágrenninu. Þá geti áhrif á samfélagið orðið neikvæð ef ekki næst sátt um framkvæmdina. Æskilegt sé að lokið verði við gerð strandsvæðisskipulags áður en staðsetning eldissvæða verði ákveðin.


Þetta kemur fram í áliti stofnunarinnar á mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Fiskeldi Austfjarða sótti upphaflega um að ala 10.000 tonn af frjóum laxi í firðinum. Slíkt samrýmist ekki áhættumati erfðablöndunar og er því gert ráð fyrir að alin verði 6.500 tonn af frjóum fiski og 3.500 tonn af ófrjóum.

En það dugir ekki til að eyða áhyggjum stofnana. Í umsögn Náttúrustofnunar við matið er lýst þeirri skoðun að eldi á frjóum, norskum laxi brjóti gegn lögum um náttúruvernd og alþjóðlegum samningum um líffræðilega fjölbreytni. Því eigi aðeins að nota ófrjóan lax. Í andsvari Fiskeldis Austfjarða segir að með varúðarráðstöfunum séu hverfandi líkur á slysasleppingum.

Skipulagsstofnun tekur ekki undir niðurstöðu fyrirtækisins að áhrif eldis á 10.000 tonnum af frjóum laxi verði óveruleg eða afturkræf á villta stofna. Máli sínu til stuðnings vísar stofnunin í bæði áhættumat Hafrannsóknastofnunar sem rannsóknir af Vestfjörðum og frá Noregi um blöndum eldislax og villts. Bent er á að miðað við 10.000 tonna eldi megi reikna með að 8.000 laxar sleppi og 48 þúsund fiskar úr áformuðu 60 þúsund tonna eldi á Austfjörðum. Til samanburðar hafi öll laxveiði hérlendis árin 1976-2019 verið 46.500 laxar.

Skipulagsstofnun telur áfram hættu á neikvæðum áhrifum á litla laxastofna í ám í Seyðisfirði þótt eldið verði fært niður í 6.500 tonn. Ekki hafi verið tekið tillit til þessara áa í áhættumatinu en smæð stofnana geri þá viðkvæma þannig að áhrifin á erfðafræðilega fjölbreytni geti orðin óafturkræf og neikvæð. Stofnunin telur þó að mótvægisaðgerðir svo sem lágmarksstærð seiða og ljósastýrin dragi úr þeim en vöktun skipti miklu máli.

Fátíð andstaða

Skipulagsstofnun telur óvissu um samfélagsleg áhrif af fiskeldinu og vísar til undirskriftalista sem 55% íbúa 18 ára og eldri undirrituðu haustið 2020 þar sem eldinu var mótmælið. Fiskeldi Austfjarða segir listann ekki hafa verið unnin hlutlaust eða faglega en það breytir engu um að Skipulagsstofnun þekkir fá, ef nokkur slík fordæmi um viðlíka andstöðu heimafólks gegn fiskeldi. Áhrifin geti orðið neikvæð til framtíðar náist ekki sátt.

Andstæðingar framkvæmdarinnar hafa vísað til þess að kvíarnar spilli ásýnd Seyðisfjarðar sem ósnortins svæðis og geti haft áhrif á ferðaþjónustuna, sem sé helsti vaxtarbroddurinn í atvinnulífi staðarins. Fyrirtækið telur ferðamennsku og fiskeldi vel geta farið saman auk þess sem það telur að fjörðurinn geti seint talist ósnortinn. Skipulagsstofnun varar við mögulegum neikvæðum áhrifum á ásýnd og ímynd Seyðisfjarðar þar sem kvíarnar séu vel sýnilegar frá bæði vinsælum ferðamannastöðum og úr Norrænu. Ekki sé sjálfgefið að þessi áhrif gangi til baka þótt eldinu verði hætt.

Á meðan vinnu við umhverfismatið stóð féll Fiskeldi Austfjarða frá eldissvæði undir Háubökkum, innarlega í firðinum, skammt frá byggðinni. Eftir standa þrjú svæði í utanverðum firðinum, í Skálanesbót, Selstaðavík og Sörlastaðavík. Bæði í kaflanum í álitinu um ásýndina, sem fleirum, er brotthvarf eldisins undir Háubökkum talið draga úr neikvæðu áhrifunum.

Æskilegt að standsvæðaskipulag liggi fyrir áður en eldissvæði verði staðfest

Skipulagsstofnun segir óvissu ríkja um áhrif á fiskveiðar þar sem gögn vanti. Staðsetning eldiskvíanna ráði mestu og því sé samráð við sjómenn mikilvægt. Stofnunin gagnrýnir Fiskeldi Austfjarða fyrir að notast aðeins við almenna útreikninga Byggðastofnunar um fjölda starfa sem eldið skapi, frekar en reikna þá sjálft. Gert er ráð fyrir að seiði verði alin í Þorlákshöfn og fiskum slátrað á Djúpavogi.

Athugasemd barst frá Farice, sem rekur samnefndar sæstreng sem kemur á land á Seyðisfirði um að óheimilt sé að leggja akkeri innan 463 metra sitt hvoru megin við strenginn. Skipulagsstofnun segir mikilvægt að huga að þessu þegar kvíarnar verði festar. Stofnunin telur æskilegt að strandsvæðaskipulag Austfjarða liggi fyrir áður en svæðum í Seyðisfirði verði ráðstafað til fiskeldis, eða haft verði náið samráð við svæðisráð. Gert er ráð fyrir að skipulagið liggi fyrir í vor.

Nauðsynlegt að hvíld verði tryggð

Í athugasemdum Umhverfisstofnunar koma fram áhyggjur af að áhrif eldisins á ástand sjávar í Seyðisfirði séu vanmetin. Hafrannsóknastofnun telur lífræn efni geta haft veruleg neikvæð áhrif undir kvíunum og hafnar fullyrðingu Fiskeldis Austfjarða um að engra áhrifa gæti í 350 metra fjarlægð frá kvíunum. Fyrir henni sé aðeins vísun í eina athugun sem sé ekki rétt túlkuð í samræmi við gögn.

Skipulagsstofnun telur líkum á miklum breytingum á botndýralífi undir kvíunum, sem þó gangi að mestu til baka með hvíld sem reiknað sé 12 mánuðir milli eldiskynslóða. Mikilvægt sé þó að fylgjast með ástandinu þannig tryggt sé að eldi fari ekki af stað aftur fyrr en botninn hafi náð sér. Til þess þurfi ákvæði í rekstrarleyfi um að Umhverfisstofnun geti frestað útsetningu seiða þótt lögboðinn hvíldartími sé liðinn.

Ólík sýn á útbreiðslu laxalúsar

Á meðan vinnu við álit Skipulagsstofnunar stóð greindist blóðþorri í fyrsta sinn hérlendis, í fiskeldinu í Reyðarfirði. Það litar umfjöllun um smitsjúkdóma, sem hafa verið fáir hérlendis miðað við önnur lönd. Niðurstaðan er því sú að óvissa ríki um áhrif eldisins á villta stofna með tilliti til sjúkdóma. Því vill stofnunin að sett verði skilyrði um að ekki verði notaður búnaður í eldið sem notaður hafi verið á svæðum þar sem komið hafa upp sjúkdómar sem ekki hafa enn greinst hér.

Skipulagsstofnun bendir á ólík sýn birtist í umsögn helstu sérfræðistofnana landsins, Matvælastofnunar og Hafrannsóknastofnunar, um hættuna af útbreiðslu laxalúsar á villta stofna. Meðan Matvælastofnun hefur litlar áhyggjur telur Hafrannsóknastofnun hættuna meiri. Til þessa hefur lítið borið á laxalús á Austfjörðum enda virðast skilyrði fyrir hana vond en Skipulagsstofnun ítrekar þó varúð þar sem gögn skorti, meðal annars um áhrif lúsarinnar á sjóbleikju eins og lifir í Fjarðará.

Nauðsynlegt að huga að náttúruvá

Skriðuföllin á Seyðisfirði lita líka umfjöllun um áhrif náttúruhamfara en þar er líka bent á hættu af hafís, marglyttum, þörungum og olíumengun frá flaki El Grillo. Skipulagsstofnun segir skriðurnar áminningu um að tekið sé tillit til náttúruvár sem skemmt geti eldisbúnað. Því sé mikilvægt að viðhafa skýrar og uppfærðar viðbragðsáætlanir. Skilyrði verði að setja í rekstrarleyfi um að slík áætlun liggi fyrir áður en leyfið verði veitt.

Stofnunin efast um mótvægisaðgerðir Fiskeldis Austfjarða gegn hafís, að strengja stálvír eða færa kvíar og telur mögulegt að grípa þurfi til neyðarslátrunar. Fram kemur að á vegum Fiskeldis Austfjarða hafi verið haft samband við íslenskt fyrirtæki og sérfræðinga við Háskólann í Stavanger til að kanna dreifingu mengunarefna frá El Grillo í firðinum. Viðbrögð verði mótuð eftir því hve utarlega efnin berast.