Skip to main content

Óveðrið að skella á Austurlandi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 07. feb 2022 08:37Uppfært 07. feb 2022 08:46

Óveðurslægðin sem valdið hefur usla á stærstum hluta landsins frá því snemma í nótt er nú fyrst að koma inn á Austurland en spár gera þó ráð fyrir að vindhraði verði mun minni en von var á lengi vel.

Hvessa á skarpt hér austanlands fram að hádegi og því fylgir bæði snjókoma og jafnvel rigning á stöku stöðum. Veðurstofan gerir nú ráð fyrir allt að 16 metra vindhraða þegar verst lætur nú fyrir hádegi en vindhraði átti að fara yfir 20 metra samkvæmt spám í gærkvöldi. Því ákveðnar líkur á að Austurland sleppi æði vel miðað við aðra landshluta eins og staðan er núna.

Vindhraði á Reykjanesi og höfuðborgarsvæðinu fór töluvert yfir 40 metra í nótt og yfir 20 metra vindhraði mældist á Akureyri snemma í morgun. Rafmagn fór af allnokkrum svæðum vegna veðursins en þó aðeins tímabundið.

Allir helstu fjallvegir eru lokaðir samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar. Það á við um veginn yfir Fagradal og Fjarðarheiði til dæmis en þeim var lokað af öryggisástæðum klukkan sex. Búast má við að þeir verði áfram lokaðir fram á daginn en frekari upplýsingar frá Vegagerðinni eru væntanlegar um klukkan 13.