Skip to main content

Óvenju erfitt að selja makrílinn

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 07. sep 2023 15:53Uppfært 07. sep 2023 15:53

Óvenju hægt gengur að selja þann makríl sem veiddist á nýafstaðinni vertíð. Framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar segir þrengra í búi hjá fólki í Evrópu en undanfarin ár. Hann kveðst bjartsýnn á að afurðir seljist á góðu verði en það taki lengri tíma.


„Makríllinn hefur aldrei verið svona þungur þau tíu ár sem ég hef verið hér. Ég held að verðin verði svipuð, það taki bara lengri tíma að selja sem þýðir kostnað við fjármagn og frystiklefa á meðan,“ segir Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði.

Þannig mun staðan vera hjá fleiri austfirskum útgerðum. Í samtali við Austurfrétt nýverið sagði Baldur M. Einarsson, útgerðarstjóri Eskju, að manneldismarkaðurinn væri óvenju þungur. „Það er búin að vera mikil verðbólga í Evrópu með minnkandi kaupmætti,“ svarar Friðrik inntur eftir skýringum á stöðunni.

Íslensku makrílvertíðinni lauk í síðustu viku. Skipin skiluðu um 136 þúsund tonnum og fengu helming aflans í íslensku lögsögunni en veiddu einnig í Smugunni. Aðrar þjóðir eru enn að veiðum sem gæti haft áhrif á markaðinn. „Færeyingar tóku 120 þúsund af þeim 160 þúsund tonnum sem þeir veiddu í bræðslu þannig þeir eru ekki fyrir okkur á markaðinum.

Norðmenn eru hins vegar að hefja veiðarnar núna. Síðustu tvö ár veiddu þeir makrílinn á sama tíma og við og voru fyrir okkur á Evrópumarkaði. Á þessum árstíma er fiskurinn lakari. Nú eru þeir komnir með samning við Breta um að veiða 60% síns kvóta í þeirra landhelgi og nú fer norski makríllinn að mestu heilfrystur á Asíumarkað því gæðin eru það mikil.“

Ekki er nýtt að sveiflur séu í uppsjávarfiski. „Makrílmarkaðurinn var mjög góður í Covid. Makríllinn fór þá mikið í niðursuðu. Fólk fór sjaldan í búðir og keypti þá slíka vöru sem hafði langt geymsluþol. Aukningin hjá okkar viðskiptavinum í faraldrinum var 20-30%“