Skip to main content

Óvenju fáir virðast hafa plokkað á Austurlandi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 27. apr 2022 14:22Uppfært 02. maí 2022 15:42

„Við hér urðum töluvert meira varir við fólk að plokka og skila hér áður fyrr en nú var raunin,“ segir Sigurbjörn Heiðdal, forstöðumaður þjónustumiðstöðvar Múlaþings á Djúpavogi.

Stóri plokkdagurinn fór fram um land allt á sunnudaginn var og hvöttu öll sveitarfélögin austanlands íbúa sína til að taka þátt með því að týna upp lauslegt rusl á víðavangi hvar sem fólk var niðurkomið og koma í lóg með aðstoð sveitarfélaganna eða skila ruslinu sjálf á gámastöðvar.

Austurfrétt forvitnaðist um hjá Múlaþingi, Fjarðabyggð og á gámastöðvum hvernig til hefði tekist að þessu sinni og ef Reyðfirðingar eru frátaldir, þar sem töluverður fjöldi spásseraði um með poka og týndi, virðist áhuginn hafa verið töluvert minni annars staðar en áður fyrr var raunin. Aðeins örfáir pokar skiluðu sér á Seyðisfirði og á Borgarfirði eystra, mun færri plokkuðu á Egilsstöðum en verið hefur lengi og sama uppi á teningnum á Djúpavogi samkvæmt samtölum við yfirmenn þjónustustöðva á þessum stöðum. Þá urðu starfsmenn sorpstöðva sem rætt var við lítið sem ekkert varir við að fólk væri að skila rusli eftir plokk.

Blaðafulltrúi Fjarðabyggðar taldi það sína tilfinningu að vel hefði gengið og margir tekið þátt í öllu sveitarfélaginu en engar tölur eru haldnar um magnið sem safnaðist þar.

Mynd: Að týna rusl á víðavangi, svokallað plokk, er orðinn lífstíll hjá fjölmörgum einstaklingum á landsvísu og skemmst er að minnast Eyþórs Hannessonar á Egilsstöðum sem var mikill frumkvöðull í ruslatýnslu og lét vart dag hjá líða án þess að taka til hendinni. Hann kunni þó illa við að vera kallaður plokkari.