Skip to main content

Óvenjulegur hvalreki í Njarðvík

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 22. apr 2025 09:53Uppfært 22. apr 2025 09:54

Bændur í Njarðvík gengu fram á óvenjulegan hvalreka í fjörunni við smölun á Föstudaginn langa en þar mun líkast til um að ræða tegund sem kölluð er norðsnjáldri sem er tiltölulega sjaldséð við Íslandsstrendur.

Meðfylgjandi mynd tók Sigurður Jakobsson af rúmlega sex metra löngum hvalnum sem hafði ekki legið þar lengi því engin var komin lykt af hræinu. Það sáust hins vegar tveir skurðir á hvalnum að sögn Sigurðar; annars vegar í munnviki og svo var nokkuð stórt hringlaga gat á maga hvalsins sem blætt hafði úr.

„Ég skal ekki hvað hefur ollið því að hann drapst en þessi sár eru töluvert stór. Hvort þau hafa komið eftir að hann kom í fjöruna skal ég hins vegar ekkert segja til um. Við erum núna að bíða eftir því hvort Náttúrufræðistofa, Hafró eða slíkar stofnanir hafa áhuga að koma að skoða hræið sem er hugsanleg því ef þetta er raunverulega norðsnjáldri hefur slíkum dýrum aðeins rekið níu sinnum á land hér samkvæmt talningum.“

Sýni stofnanir engan áhuga á að skoða hræið segir Sigurður ljóst að það verði að farga hræinu með einhverju móti áður en það fer að úldna.

„Ætli við reynum þá ekki að grafa það í sandinn hér með einhverjum hætti áður en til þess kemur en fyrst bíðum við svara frá stofnununum.“