Óvenjulegur sjávarkuldi austanlands gæti haft áhrif allt sumarið

Hafís og útbreiðsla pólsjávar djúpt norður af landinu í vetur skýrir að stórum hluta óvenjulega kaldan sjó úti fyrir ströndum Austurlands síðustu dagana. Reynslan sýni að slíkur kuldi geti orðið viðvarandi út sumarið og þar með haft drjúg áhrif á lofthitann.

Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur hjá Bliku, velti vöngum yfir sjávarkuldanum austanlands í færslu á samfélagsmiðlum en hann rak í rogastans í fyrrakvöld þegar spálíkan Bliku gerði aðeins ráð fyrir þriggja stiga hita á Reyðarfirði þá nóttina. Reyndist það svo standast þegar upp var staðið og það kulda í sjónum um að kenna.

Aðspurður um hvaða áhrif óvenjulega kaldur sjórinn geti haft fram í tímann segir Einar reynsluna sýna að slíkur kuldi geti orðið viðvarandi í sjó allt sumarið og þar með haft veruleg áhrif á lofthitann.

„Sjávarhitinn hefur auðvitað áhrif á hitastigið almennt en þá kannski frekar á Austfjörðum en Austurlandinu öllu. Við búum náttúrulega á eyju og sjávarhitinn er að stórum hluta mjög ráðandi þáttur í lofthitanum. Svo koma aðrir þættir þar inn eins og vindáttir. Ef ákveðinn vindur kemur að sunnan eða suðvestan eins og spár gera ráð fyrir næstu daga þá ætti fólk ekki að finna neitt fyrir sjávarkuldanum því vindurinn er það sterkur að hann bægir kuldanum frá. En hann mun vissulega finnast ef það snýst í norðan eða norðaustanátt sem eru auðvitað algengustu vindáttirnar austanlands.“

Sjávarkuldinn mun hafa meiri áhrif á lofthita í fjörðum Austurlands en annars staðar og líkast til í allt sumar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.