Fækka kerjum í rekstri vegna skerðingar á raforku

Búist er við að áhrif boðaðra skerðinga á raforku til stórnotenda á Norður- og Austurlandi hafi óveruleg áhrif á framleiðslu álvers Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði, þótt viðbúið sé að eitthvað þurfi að draga úr henni.

„Við munum fækka kerum í rekstri sem hefur tímabundið áhrif á heildar framleiðslumagnið okkar. Þegar skerðingartímabilinu lýkur munum við ræsa þessi ker aftur," segir Vigdís Diljá Óskarsdóttir, stjórnandi samskipta- og samfélagsmála hjá Alcoa Fjarðaáli.

Landsvirkjun tilkynnti í byrjun mánaðar að grípa þyrfti til skerðinga á raforku til stórnotenda á Norður- og Austurlandi í samræmi við samninga. Veturinn hefur þurr á svæðinu og því vatnsyfirborð miðlunarlóna lækkað meira en búist var við. Aðgerðirnar eru ætlaðar til að verja vatnsstöðuna í Hálslóni, miðlunarlóni Kárahnjúkavirkjunar sem fæðir álverið, og í Blöndulóni. Gert er ráð fyrir að skerðingarnar standi fram í maí.

Áður hafði verið gripið til sambærilegra ráðstafana á suðvesturhorninu. Þá hafa náttúruhamfarirnar á Reykjanesi aukið álagið á raforkukerfið. Að auki hefur Landsvirkjun heimilað stórnotendum að selja orku sem þeir nota ekki aftur inn á kerfið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.