Skip to main content

Óvissan og norðurljósin geta verið tækifæri Austurlands á veturna

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 04. maí 2023 15:10Uppfært 04. maí 2023 15:10

Sérfræðingar í ferðaþjónustu hvetja Austfirðinga til að skoða þau tækifæri sem felast í norðurljósunum og reyna að gera óvissuna, sem fylgi því að ferðast um landið að vetri til, jákvæða til að bæta ferðamennsku á svæðinu utan sumartíma.


Þetta kom fram í máli Hildar á málþingi Austurbrúar um fjárfestingar í ferðaþjónustu sem haldið var í gær. Meðal annars var efnt til málþingsins þar sem ekkert verður af fyrirhuguðu áætlunarflugi þýska flugfélagsins Condor milli Egilsstaða og Frankfurt þar sem gistipláss og afþreyingu skorti á svæðinu. En þar sem ferðamennskan telst vart enn heilsárs atvinnugrein eystra halda fjárfestar að sér höndum.

„Við verðum að auka fjárfestingar til að stækka á heilsárs grundvelli en það þarf líka fleiri innviði á háannatímanum. Við reyndum við hænuna, nú erum við að tala um eggið. Við verðum að sýna að áfangastaðurinn Austurlands sé tilbúinn í næstu atrennu,“ sagði Jóna Árný Þórðardóttir, fráfarandi framkvæmdastjóri Austurbrúar.

Norðurljósin aðalaðdráttarafl norðurslóða


Friðrik Pálsson frá Hótel Rangá sagði stöðuna ekki hafa verið ósvipaða á Suðurlandi fyrir 20 árum, bæði að sumrin hefðu verið full en aðrir mánuðir erfiðir sem þýddi að ferðaþjónustan var á vorin rekin á yfirdrætti. Tvisvar hefði Hótel Rangá nærri verið farin í þrot. Á sama tíma hefði verið treyst á þjónustu og afþreyingu í Reykjavík.

Þetta hefði leitt til þess að farið væri að hvernig vetrarferðamennska væri byggð upp á norðurslóðum og í ljós komið að bæði í Kanada og á Norðurlöndunum væru norðurljósin aðalaðdráttaraflið. „Ef þið keyrið á norðurljósin sem fyrst þá mun það skila ykkur gríðarlega miklu.“

Er hægt að markaðssetja óvissuna?


Hildur Sveinbjörnsdóttir, fyrirtækjaráðgjafi hjá Arctica Finance, velti því upp hvort hægt væri að gera óvissuna sem fylgi vetrinum aðlaðandi. Hún hvatti ferðaþjónustuaðila á Austurlandi til að vinna saman að því að búa til ferðir sem hægt væri að markaðssetja og selja sem óvissuferðir.

Þar með væri óvissan uppi á borðunum og sveigjanleiki til breyta plönum í miðri ferð. Um leið myndu safnast gögn sem hægt væri að nýta til að sannfæra fjárfesta um að taka þátt í frekari uppbyggingu ferðaþjónustu á svæðinu. „Þegar axlarmánuðirnir skila ávöxtun verður svæðið meira aðlaðandi fyrir alla.“

Hagur allra að ferðafólk ferðist víða um Ísland


Renata Sigurbergsdóttir, markaðsstjóri Arctic Adventures, sagði hag allra að ferðafólk fari í lengri, skipulagðar ferðir um Ísland. Fyrirtækið hefur sérhæft sig í hringferðum á minni rútum. Það hefur ráðist í fjárfestingar til að geta tryggt ferðirnar og er aðaleigandi Óbyggðasetursins í Fljótsdal. „Suðurströndin er orðin uppseld, einkum á sumrin. Ef einn gististaður dettur út þá getum við ekki keyrt ferðina okkar.“

Hún tók Óbyggðasetrið dæmi um vel heppnaða uppbyggingu í ferðaþjónustu. „Þar er lögð áhersla á ósvikinn uppruna sem er vinsæll meðal ferðafólks. Þar er það margt í boði fyrir ferðamanninn að hann þarf ekki meira. Þótt staðurinn sé út úr leið er það þess virði að fara þangað.“

Hún nefndi einnig fleiri tækifæri á Austurlandi, til dæmis gönguleiðir í ljósi þess að ekki komist fleiri um Laugarveginn. Þá sé dýralífið með lunda og hreindýrum áhugavert. Á móti kemur að huga þurfi að þjónustu, svo sem salernum og snjómokstri, sem ekki sé sanngjarnt að leggja allt á litla aðila. Þar þurfi að koma til samtal við þá sem selja ferðir. Eins þurfi að vera til áform um hvað sé hægt að gera þegar veðrið er vont.

Þá hvatti hún Austfirðinga að hafa í huga sjálfbærni við uppbyggingu í ferðaþjónustunni. „Náttúruna er það dýrmætasta sem við eigum. Það er ekki enn mikið spurt um áherslu í sjálfbærni hjá okkur en á ferðasýningum finnum við að það kemur með nýrri kynslóð. Ef við hugum ekki strax um sjálfbærnina þá kemur það í bakið á okkur.“