Óvissustigi aflétt á Austfjörðum
Óvissustigi vegna snjóflóðahættu á Austfjörðum var aflýst í morgun. Í gærkvöldi var hættustigi aflétt á Seyðisfirði og rýmingu á tveimur reitum í bænum einnig. Að minnsta kosti tugur snjóflóða hafa fallið vítt og breitt á Austfjörðum frá áramótum en engin þeirra verulega stór og ekki er vitað um tjón af þeirra völdum.
Seinnipart dags í gær dró úr úrkomu á Austfjörðum og hitastig fór lækkandi, og dró þar með úr hættu á ofanflóðum. Ekki er lengur talin hætta á náttúrulegum snjóflóðum en fólk sem ferðast um í fjalllendi er hvatt til að fara varlega, þar eð umferð vélsleða eða skíðafólks, til dæmis, gæti sett af stað flóð. Samkvæmt Veðurstofu Íslands má gera ráð fyrir að snjór styrkist næstu daga og dragi þar með enn frekar úr flóðahættu.
Þau snjóflóð sem féllu í veðrinu féllu að líkindum flest 1. janúar. Flest voru þau lítil eða meðal stór, vot flekaflóð en ekki er vitað um nein krapaflóð sem hafa fallið. Flóð féllu í Eskifirði, Norðfirði, í Oddskarði og á Fagradal, einnig í Reyðarfirði og Seyðisfirði.