Óvissustigi vegna júníhrets aflýst
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 06. jún 2025 11:07 • Uppfært 06. jún 2025 11:08
Ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjórann á Austurlandi, hefur aflýst óvissustigi almannavarna sem sett var á mánudag vegna norðanhríðar. Viðvaranir vegna skriðuhættu á Norðausturlandi eru þó enn í gildi.
Í tilkynningu almannavarna segir að veðrið sé gengið yfir og aðstæður hafi batnað. Því sé ekki þörf á auknu viðbúnaðarstigi.
Óvissustiginu var ekki síst lýst yfir vegna vatnavaxta og skriðuhættu. Ekki hafa borist fréttir af öðrum skriðum á Austurlandi en lítilli skriðu sem féll niður lækjarfarveg á Norðfirði.
Hins vegar er viðbúið að einhverjar spýjur sjáist næstu daga þegar skyggni til fjalla batnar. Vestdalsá á Seyðisfirði varð brúnleit í vikunni en ekki er vitað hvort það hafi einfaldlega verið vegna vatnavaxta eða hvort skriða hafi fallið í hana.
Jón Kristinn Helgason, sérfræðingur á ofanflóðavakt Veðurstofu Íslands, segir að hraðar hafi dregið úr þeirri rigningu sem gekk yfir Austurland á miðvikudagskvöld en upphaflega var spáð. Eins hafi veðrið verið kaldara og því minna afrennsli úr fjöllum.
Viðvörun vegna skriðuhættu á Norður- og Norðausturlandi verður áfram í gildi í dag. Mesta hættan er afstaðin en talsvert vatn er enn á leið til sjávar og einkum bleyta í neðri hlutum hlíða. Helst er þó fylgst með ástandinu á Tröllaskaga frekar en í kringum Vopnafjörð og Borgarfjörð þar sem mikilli úrkomu var spáð.
Þá er eftir að koma í ljós hvort og hvaða áhrif hretið hefur haft á fugla sem voru búnir að verpa eða lömb sem sleppt hafði verið á fjöll.
Þótt hretið sem slíkt sé afstaðið er spáin fyrir hvítasunnuhelgina ekki merkileg. Vindur stendur áfram úr norðri og hiti verður um eða rétt ofan frostmarks á nóttunni og varla tíu stig yfir daginn. Þurrt verður að mestu.
Mynd: Hlynur Sveinsson