Páskafjör í brekkunum austanlands um hátíðisdagana
Plötusnúðar, trúbadorar, diskó, páskaeggjaleit og heitt á grillinu. Þá fátt eitt nefnt sem finna má í skíðabrekkunum í Oddsskarði og Stafdal yfir páskahátíðina.
Engum þarf að leiðast mikið um páskana ef bretta- eða skíðaiðkun er í uppáhaldi því mikið verður að gerast á báðum þessum vinsælu skíðastöðum Austurlands alla páskadagana. Báðir staðir bjóða upp einnig upp á sérstaka kvöldopnun þar að auki svona ef fólk fær ekki nóg eftir daginn.
Í Stafdal er opið alla páskana frá 11 - 16 og við bætist kvöldopnun á Föstudaginn langa frá 20 til 22. Plötusnúður verður á svæðinu það kvöldið til að lyfta fólki enn hærra. Á laugardeginum verður sett upp sérstök leikjabraut í brekkunni og grill á staðnum fyrir þá sem vilja fá sér eitthvað matarkyns. Á sjálfan Páskadag fer svo fram páskaeggjaleit og aftur hitað upp í grillinu.
Í Oddsskarði er ekki síðri dagskrá en þar er opið frá 10 til 17 alla páskadagana og milli 13 og 20 á Skírdag. Föstudaginn langa verður einnig boðið upp á skíðaklossasdiskó svona í og með. Páskaeggjaleit fer auðvitað fram á Páskadag og kvöldopnun er á svæðinu þann daginn milli 20 og 22. Trúbador flytur nokkur vel valin lög fyrir gesti og kvöldið endað með flugeldasýningu. Hægt er að kaupa sérstaka páskapassa á staðnum fyrir alla dagana.
Mynd: Frá Stafdal í Seyðisfirði. Opið er á báðum austfirsku skíðasvæðunum alla páskana. Mynd Stafdalur