Plássleysi í leikskólanum á Djúpavogi skal leysa með daggæsluframlagi

Fyrirséð er að einhver fjöldi barna á Djúpavogi komast ekki að í leikskólanum Bjarkatúni í þorpinu næsta skólaár. Fjölskylduráð Múlaþings hyggst leysa vandann tímabundið með daggæslugreiðslum til foreldra þeirra barna sem ekki fá pláss.

Íbúum hefur farið fjölgandi á Djúpavogi sem víðar á Austurlandi en samhliða fjölgun eykst þörfin á skólaplássum auk annarrar þjónustu sem sveitarfélögin skulu lögum samkvæmt veita íbúum sínum.

Færri börn en óttast var

Aðspurð um hve mörg börn verða frá að hverfa á næsta skólaári segir Guðrún Sigurðardóttir, leikskólastjóri, það ekki alveg liggja fyrir en þau séu þó færri en óttast var fyrst. Hún segir að þó staðan sé miður góð hvað þetta varðar þá sé þetta í raun lúxusvandamál því barnafólki sé að fjölga sem sé vitaskuld jákvæð þróun.

Það er langt frá því að þetta sé í fyrsta skiptið sem leikskólinn Bjarkatún er ekki nógu stór fyrir fjöldann sem sækir um pláss. Leikskólinn var byggður árið 2005 og þótti þá of stór en árið 2009 var hann orðin fullsetinn og það kemur upp alltaf öðru hvoru að ekki fá allir pláss en alls ekki á hverju ári. Ýmsar lausnir hafa verið reyndar til að koma sem flestum inn, til dæmis að hafa auka deild í öðru húsnæði, en í dag er ekkert húsnæði á Djúpavogi sem uppfyllir þau skilyrði sem þarf.

Annað sem flækir stöðuna á Djúpavogi sem víðar eru ný viðmið Kennarasambands Íslands um lágmarksrými fyrir bæði kennara og nemendur en þau viðmið fækka enn frekar þeim plássum sem í boði eru.

Lausna leitað áfram

Fjölskylduráð Múlaþings hyggst koma til móts við þá foreldra sem ekki fá pláss næst skólaárið með daggæsluframlögum en jafnframt samþykkti ráðið að skipaður skyldi starfshópur til að finna lausnir á plássleysi Bjarkatúns.

Spurt út í hennar eigin hugmyndir að lausn á þessu segir leikskólastjórinn að vænlegast sé að byggja þriðju deildina við skólann sem fyrst.

Mín lausn hefur alltaf verið að það þurfi að byggja þriðju deildina við leikskólann svo við eigum ekki alltaf á hættu að það vanti pláss. Ef það væri farið strax í að byggja við væri hægt að taka börn inn á þá deild haustið 2025 og því ætti það að vera fljótlegasta og hagkvæmasta lausnin. En að sjálfsögðu nýtist það ekki foreldrum sem þurfa að koma börnum inn í haust.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.