Skip to main content

Plastkúlurnar þenjast út fjörtíufalt í kassaverksmiðjunni

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 20. júl 2023 14:10Uppfært 20. júl 2023 16:00

Kassaverksmiðja Bewi á Djúpavogi bíður þess nú að fiskur í eldiskvíum í Fáskrúðsfirði komist upp í sláturstær en hún verður þá gangsett á ný. Verksmiðjan var gangsett þann 17. júní í fyrra en með tilkomu hennar þarf ekki lengur að keyra tómar umbúðir landshorna á milli í laxasláturhús Búlandstinds.


Hráefnið eru litlar perlur sem fluttar eru inn frá verksmiðjum Bewi í Finnlandi og Hollandi. Þær eru smáar, eins og sandur, 0,6-1mm. Þær fara í svokallaðan forþenjara þar sem þær þenjast upp í vinnslustærðina, í fyrirfram ákveðna rúmþyngd. Í þeim er pentangas sem þenst út við hita.

Þegar kúlurnar koma úr forþenjaranum hafa þær stækkað um það bil fjörutíufalt, en eru engu að síður ekki nema nokkrir millimetrar í þvermál.

Gæta þarf að því hversu mikið perlurnar eru þandar, ofþandar kúlur eru veikari og gera kassann þar með ekki eins sterkan. Eins getur þurft að stilla vélarnar eftir því hvaðan perlurnar koma því þær hafa mismunandi eiginleika.

Þar næst fara perlurnar yfir í forþenjara, þar sem þær eru hitaðar upp með gufu en þaðan yfir í síló í hliðarsalnum. Þar þurfa kúlurnar að vera í 1-2 daga áður en hægt er að taka þær inn á framleiðsluvélarnar. Í sílóunum verður gasið að fara úr þeim, til að þær haldi ekki áfram að þenjast út þegar þær hitna á ný við framleiðslu kassanna, ella geta þeir aflagast.

Í aðalsalnum eru alls sjö framleiðsluvélar í tveimur röðum. Öðru megin eru vélarnar þrjár sem framleiða lokin, en hinu megin eru þær fjórar sem gera kassana sjálfa. Þær sjúga síðan til sín perlurnar sem raðast saman í mót og þéttast. Framleiddar eru tvær gerðir af kössum, annars vegar dæmigerðir laxakassar sem rúma um 23 kg og nýtast einnig undir heilan þorsk, hins vegar flakakassar, svokallaðir 5 kg og 3 kg kassar, sem einkum eru nýttir undir hvítfisk.

Sparar mikinn akstur


Flestir kassanna eru notaðir hjá laxasláturhúsi Búlandstinds, en Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði kaupir einnig af Bewi. Þegar kassarnir koma úr vélunum fara þeir út á færibönd og raðast upp í einingar til flutnings. Hægt er að rúlla þeim alla leið á færiböndunum út í flutningabíl, sem einnig er með færibönd í botninum til að auðvelda vinnuna. Það þýðir að mannshöndin þarf aldrei að koma við kassana sjálfa. Hún þarf hins vegar að aðstoða við að raða saman lokunum.

Þetta þýðir að þrátt fyrir að verksmiðjan sé 2800 fermetrar þarf ekki nema 2-3 starfsmenn til að sinna framleiðslunni. Þegar vel gengur þurfa þeir ekki að gera mikið meira en að fylgjast með að allt gangi eðlilega. Vélarnar geta framleitt tæplega 600 laxakassa á klukkustund en um 400 flakakassa.

Bewi er ein þriggja verksmiðja á landinu sem framleiða umbúðir úr frauðplasti. Hinar eru Borgarplast í Reykjanesbæ og Tempra í Hafnarfirði. Hér má þó skjóta inn að Plastiðjan Ylur á Fljótsdalshéraði vinnur einangrun í hús úr frauðplasti. Eiginleikarnir eru þeir sömu. „Frauðplastið er 98% loft og það er það sem býr til einangrunina. Hvað hana varðar er ekkert efni sem stendur frauðplastinu á sporði,“ útskýrir Jón Þór Jónsson, verksmiðjustjóri Bewi.

Áður en verksmiðjan var gangsett var tómum kössum keyrt austur á land með flutningabílum. Talsvert hagræði er að hafa hana sem næst sláturhúsinu því úr einum gámi af hráefni, 22 tonnum, verða kassar sem fylla 60-70 40 feta skipagáma.

Bíður næstu kynslóðar


Sem fyrr segir kom fyrsti kassinn úr vélunum 17. júní í fyrra. Sumarið var síðan nýtt til að læra á vélarnar og komast fyrir byrjunarörðugleika. Nokkur gangur var í starfseminni seinnipart síðasta árs, á meðan lokið var við að slátra upp úr kvíum í Berufirði, en slátra þurfti laxi bæði þaðan og úr Reyðarfirði fyrr en áætlað var eftir að blóðþorri greindist þar.

Verksmiðjan er núna stopp á meðan beðið er eftir að fiskur í eldiskvíum í Fáskrúðsfirði vaxi upp í sláturstærð. Ráðgert er að hún fari aftur af stað í september. Gangi áætlanir um aukningu eldis á Austfjörðum eftir er ætlað að frá og með árinu 2025 verði tvær vaktir í verksmiðjunni.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.