Pönkgarður og golfhermir fá styrk úr frumkvæðissjóði Sterks Stöðvarfjarðar
Nýverið var úthlutað 7,2 milljónum króna úr frumkvæðissjóði Sterks Stöðvarfjarðar sem aftur er hluti af verkefninu Brothættar byggðir. Sautján aðilar fengu styrki.
Eitt meginþema verkefnisins er að ýta undir og virkja frumkvæði og samtakamátt bæjarfélagsins og fá tillögur frá heimamönnum sjálfum um hvað beri að gera til að styðja við bæjarlífið til frambúðar. Ekki skorti á tillögurnar því alls bárust 30 umsóknir í heildina.
Hæsta styrkinn að þessu sinni upp á eina milljón króna hlaut fyrirtækið Goðaborg sem ætlar að koma upp iðnaðarreykhúsi á staðnum. Kaffibrennslan Kvörn og fasteignafélagið Tudor fengu 750 þúsund hvor um sig en hið síðarnefnda keypti fyrr í vetur verslunina Brekkuna.
Ýmsar forvitnilegar hugmyndir fengu lægri styrk og þar á meðal áhugahópur um golfhermi á Stöðvarfirði sem vill koma upp slíku tæki fyrir kylfinga í bænum. Íbúasamtökin hlutu styrk til að útbúa rafrænt göngukort um bæinn og Þórhallur Ingimar Atlason fékk 200 þúsund til að útbúa sérstakan Pönkgarð.
Öll verkefni sem styrk hlutu má finna hér en athöfnin fór fram á efri hæð í Sköpunarmiðstöðinni en sú hæð verið tekin duglega í gegn á síðustu misserum.
Hluti styrkþega við úthlutunina í síðasta mánuði. Mynd Austurbrú.