Skip to main content

Pussy Riot á LungA

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 06. jún 2023 09:23Uppfært 06. jún 2023 09:24

Fjöllistahópurinn Pussy Riot, sem þekktastur er fyrir andóf sitt gegn rússneskum stjórnvöldum, mun sýna tvisvar á listahátíðinni LungA á Seyðisfirði í sumar. Framkvæmdastjóri hátíðarinnar segir feng að fá hópinn austur.


„Þau sýndi í Kling og Bang í vor og við prófuðum að senda þeim línu. Þau svöruðu og sögðust spennt fyrir að koma,“ segir Þórhildur Tinna Sigurðardóttir, annar tveggja framkvæmdastjóra hátíðarinnar.

Hópurinn var upphaflega stofnaður af 11 konum í Rússlandi árið 2011. Hann vakti fyrst athygli fyrir mótmæli í garð Vladimirs Pútíns Rússlandsforseta fyrir meðferð á réttindum kvenna og hinsegin fólks sem og spillingar í kringum forsetann. Undanfarin misseri hefur hópurinn helst beint gagnrýni sinni að stríðinu í Úkraínu.

Strax árið 2012 var hluti hópsins handtekinn og dæmdur til fangelsisvistar. Hópurinn lenti síðar í frekari útistöðum í heimalandinu og flúði það loks eftir að stríðið braust út í fyrra. Tvær úr hópnum fengu íslenskan ríkisborgararétt í mars.

Hópurinn var í upphafi þekktastur fyrir tónlist sína en hann kemur víða við í listsköpun sinni. Sýningin sem flutt verður á Seyðisfirði kallast Riot Days og byggir á bók sem einn meðlima hópsins, Maria Alyokhina, gaf út árið 2017.

„Sýningin rekur upphaf hópsins og það ferðalag sem hann hefur verið á, meðal annars setið í fangelsi í Rússlandi. Þetta eru leikhús, mótmæli og tónleikar í einum pakka,“ segir Þórhildur.

„Hugmyndafræðin er að hver sem er geti verið Pussy Riot. Þótt þær séu fjórar sem sýna, þrjár þeirra sem hafa verið lengst og síðan ein sem er búin að vera skemur, þá er það að mæta á sýninguna í raun þátttaka í gjörningi hópsins,“ bætir hún við.

Fengur fyrir LungA að fá Pussy Riot


Hópurinn er núna á ferð með sýninguna um Evrópu og Bandaríkin. Hún hefur verið fjölsótt og er áformað að Pussy Riot sýni tvisvar á LungA í félagsheimilinu Herðubreið, fyrst við opnun hátíðarinnar mánudaginn 10. júlí en svo aftur fimmtudaginn 13. Þórhildur segir að meðlimir Pussy Riot verði á Seyðisfirði í vikunni ásamt fjölskyldu og vinum og ekki sé loku fyrir það skotið að þriðju sýningunni verði bætt við reynist eftirspurnin það mikil. Selt er sérstaklega á sýningu Pussy Riot, en hluti tekna af henni rennur til barnaspítala í Úkraínu.

Hún segir mikils virði að fá Pussy Riot á LungA. „Við erum tvö ný sem stýrum hátíðinni í ár og vonumst að koma Pussy Riot geti komið LungA enn frekar á kortið og sýnt hvað hátíðin eigi inni til framtíðar. Sýningin er mjög mikilvæg í ljósi heimsmálanna í dag. Það skiptir máli að sýna að listin getur verið vettvangur til að sýna andóf. Ég sá sýninguna í vetur og mér fannst hún áhrifarík og mikilvæg fyrir umræðuna.“