Ráðherra bakkar með þjóðlendukröfur

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra hefur óskað eftir því að Óbyggðanefnd fresti málsmeðferð þjóðlendna á svæði 12, eyjum og skerjum, þannig að unnt sé að endurskoða kröfur ríkisins með hliðsjón af betri gögnum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðuneytinu í dag. Ráðherra, fyrir hönd íslenska ríkisins, gerði í febrúar kröfur í eyjar og sker hringinn um landið sem standa upp úr á stórstraumsfjöru. Tugir þeirra voru á Austurlandi, meðal annars Hafnarhólmi, Skrúður og Bjarnarey.

Sveitarstjórn Múlaþings var meðal þeirra sem mótmæltu kröfunum, taldi hana ganga of langt og hún stæðist hvorki fasteignalög né lög um Óbyggðanefnd, sem er rannsóknar- og úrskurðaraðili í málinu.

Í bréfi ráðherra til Óbyggðanefndar frá í dag segir að við yfirferð gagna vegna kröfugerðarinnar hafi komið í ljós að ekki liggi fyrir nógu ítarlegar upplýsingar um mörg svæðanna. Þannig sé erfitt að meta af heimildum eða kortasjám hvort eyjar eða sker séu innan eða utan þess svæðis sem málsmeðferðin tekur til, meðal annars því örnefni skarast en einnig því hafsvæðið hefur ekki verið kortlagt jafn ítarlega og meginlandið. Þá hafi komið fram nýjar kortaupplýsingar. Með allt þetta í huga megi velta því upp hvort svæðið hafi yfir höfuð verið tiltækt til málsmeðferðar.

Eins segir í bréfinu að fram hafi komið málefnaleg rök um að kröfugerðin hafi gengið of langt. Fyrirsjáanlegt er að stórlega verði dregið úr kröfunum við endurskoðun þeirra. Framundan sé vinna við að einfalda kröfugerðina og fækka ágreiningssvæðum auk þess sem tryggja verði að hún standist almenn sjónarmið stjórnsýsluréttar um rannsókn máls og meðalhóf.

Mynd: Landvernd


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.