Skip to main content

Ráðherra boðar svarta skýrslu um hitaveitur

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 04. maí 2023 19:25Uppfært 04. maí 2023 19:37

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, kynnir á morgun nýja skýrslu um stöðu hitaveitna og nýtingu jarðvarma til húshitunar. Ráðherrann segir hana svarta.


„Hún er svört, það hefur ekkert verið gert fyrir hitaveiturnar í 20 ár,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson á opnum fundi á Egilsstöðum síðdegis í dag.

Hann var þar þó reyndar ekki til að tala um hitaveiturnar heldur nýútkomna greiningu starfshóps um kosti í vindorkumálum hérlendis. Fundurinn var fjölsóttur en hópurinn lagði engar tillögur á borðið heldur dró fram álitaefni um mögulega vindorkunýtingu hérlendis.

Guðlaugur Þór vék þar þó lítillega að hitaveituskýrslunni sem kynnt verður á morgun. Óttast hefur verið að vindorkan kunni, vegna þeirra sveiflna sem eru í framleiðslu hennar, að leiða til hækkunar raforkuverðs. Slíkt kæmi hvað harðast niður á fólki sem býr á köldum svæðum, stöðum sem hafa ekki aðgang að hitaveitu. Guðlaugur Þór sagðist vera með augun opin fyrir köldu svæðunum og hitaveituskýrslan væri ekki síst gerð þeirra vegna.

Þá sagðist hann í lokaorðum sínum stoltur af fyrri orkuskiptum Íslendinga sem hefðu á sínum tíma farið í að nýta jarðvarmann í stað gass og kola. Það hefði þó ekki verið sjálfsagt á sínum tíma og raddir verið uppi um annað.

Skýrslan sem kynnt verður á morgun er unnin af Íslenskum orkurannsóknum (ÍSOR) að beiðni Guðlaugs Þórs vegna erfiðrar stöðu hjá mörgum hitaveitum síðasta vetur.

Í tilkynningu ráðuneytisins segir að í henni sé lagt mat á stöðu rannsókna og gagna um auðlindina og hvernig þróun nýtingar hefur verið. Meðal annars komi fram að um 2/3 hitaveitna sem úttektin nær til sjá fram á aukna eftirspurn og telja fyrirsjáanleg vandamál við að mæta henni.

Í skýrslunni eru einnig útlistaðar hvaða hindranir kunni að vera við frekari jarðhitaleit eða nýtingu, sem og hvaða tækifæri eru til sjálfbærrar nýtingar jarðhita til framtíðar.