Skip to main content

Ráðherra leggur til að Hamarsvirkjun verði færð í biðflokk

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 20. ágú 2025 16:57Uppfært 20. ágú 2025 16:58

Logi Einarsson, sem staðgengill Jóhanns Páls Jóhannssonar, umhverfis- orku – og loftslagsráðherra, hefur lagt fram tillögu um að Hamarsvirkjun verði færð í biðflokk rammaáætlunar um virkjunarkosti. Hún hafði áður verið sett í verndarflokk.


Verkefnastjórn 5. áfanga rammaáætlunar hefur undanfarin misseri verið með fimm virkjunarkosti til umfjöllunar: Bolaölduvirkjun, Hvanneyrardalsvirkjun, Skúfnavatnavirkjun, Tröllárvirkjun og Hamarsvirkjun.

Verkefnisstjórnin skilaði af sér tillögum sínum til ráðherra um miðjan mars en hlutverk hennar er að gera tillögur sem ráðherra tekur afstöðu til. Hamarsvirkjun var sú eina sem sett var í verndarflokk. Í dag var birt tillaga í samráðsgátt stjórnvalda um að Hamarsvirkjun verði færð í biðflokk, en kveðið er á um samráð hyggist ráðherra færa virkjunarkosti milli flokka. Umsagnarfrestur er til 19. nóvember. Ráðherra leggur síðan tillögu sína fyrir Alþingi sem hefur endanlegt ákvörðunarvald.

Hvað þýða flokkar rammaáætlunar?


Flokkar rammaáætlunar eru þrír. Í fyrsta lagi orkunýtingarflokkur, það er virkjunarkostur sem talið er að megi ráðast í og þar með eru rannsóknir heimilar. Á hinum endanum er verndarflokkur, sem eru kostir sem ekki er talið rétt að ráðast í, til dæmis vegna náttúruverndar. Óheimilt er að stunda rannsóknir til orkunýtingar eða gefa út slík leyfi á þeim svæðum heldur er kvöð um að þau verði friðlýst.

Milliflokkurinn er biðflokkur en í honum eru virkjunarkostir sem ekki er hægt að taka afstöðu til vegna skorts á gögnum. Rannsóknir eru heimilar en ekki að gefa út vinnsluleyfi.

Neikvæð fyrir umhverfi en betri fyrir raforkuöryggi


Verkefnastjórn flokkaði Hamarsvirkjun í verndarflokk því hún hefði neikvæð áhrif á verðmætar náttúruminjar: Hraunasvæðið og Lónsöræfi. Hún var einnig talin hafa neikvæð áhrif á hreindýr og geta valdið deilum í samfélaginu. Á móti var hún talin jákvæð fyrir efnahag og raforkuöryggi á Austurlandi.

Náttúruverndarsamtök fögnuðu tillögunni meðan sveitarfélög á Austurlandi mótmæltu og vísuðu til þess að meiri raforku þyrfti til að byggja upp atvinnu á svæðinu.

Dómur Hæstaréttar sett friðlýsingar og vernd í uppnám


Í rökstuðningi ráðherra er vísað til þessara röksemda sveitarfélaganna. Þar segir að skortur á raforku hafi áhrif á atvinnulíf á Austurlandi og þess vegna sé mikilvægt að fjölga virkjunarkostum þar, einkum með tilliti til spár Landsnets um aukna orkuþörf. Varað hefur verið við því að grípa þurfi til skömmtunar og komið er inn á að raforkuverð hafi hækkað verulega vegna ójafnvægis milli framboðs- og eftirspurnar á raforkumarkaði.

Þar segir einnig að framkvæmdir við stór og hagkvæm verkefni hafi tafist meðan óvissa sé um aðra virkjunarkosti vegna jarðhræringa. Þess vegna sé brýnt að forgangsraða frekari rannsóknum á virkjunum utan helstu umbrotasvæða, því þær geti tryggt framboð raforku. Hamarsvirkjun sé utan þessara svæða og stuðli þannig að langtímaöryggi raforkuframleiðslu.

Í rökstuðningnum kemur líka fram að umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hyggist gera tillögur um breytingar á lögum um rammaáætlun í haust. Það er meðal annars eftir dóm Hæstaréttar um friðlýsingu vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum sem dæmd var ólögleg í fyrra. Dómurinn leiddi meðal annars í ljós að engin svæði hafa verið friðlýst gegn orkuvinnslu með bindandi hætti, þrátt fyrir lögin sem gilt hafa frá árinu 2011. Til stendur að hraða þeirri vinnu.

Á að jafna sveiflur í vindorkuveri


Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar-, og háskólaráðherra er settur ráðherra við meðferð málsins en Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra vék sæti vegna tengsla við framkvæmdaaðila eins þeirra orkunýtingarkosta sem voru til meðferðar. Ekki eru lagðar til breytingar á hinum fjórum.

Gert hefur verið ráð fyrir að nýta vatn af vatnasviði Hamarsá, sem á upptök sín í smávötnum og tjörnum efst í Sviðinhornahraunum efst í Hamarsdal. Miðlað yrði í gegnum aðrennslisgöng úr tveimur lónum, í Hamarsvatni og inntakslóni í Vesturbót, í stöðvarhús sem yrði neðanjarðar. Með því fengist 60 MW virkjun sem myndi skila af sér 232 gígawattstundum á ári.

Framkvæmdaaðilinn er Arctic Hydro, sem áður hefur meðal annars virkjað Þverá í Vopnafirði. Viljayfirlýsing liggur fyrir milli fyrirtækisins og CIP sem áformar að reisa vindorkugarð í Fljótsdal til að knýja rafeldsneytisverksmiðju á Reyðarfirði en CIP þarf jöfnunarorku á móti vindorkunni.

Hraun inn af Hamarsdal. Mynd: Andrés Skúlason