Skip to main content

Ráðherra lýsir sig tilbúinn til samtals um Sundabúð

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 02. nóv 2023 10:46Uppfært 02. nóv 2023 10:51

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, segist tilbúinn til samtals við Vopnafjarðarhrepp um framtíðarfyrirkomulag reksturs hjúkrunarheimilisins Sundabúðar. Sveitarfélög á Austurlandi eru meðal þeirra sem sótt hafa um þátttöku í nýju verkefni um samþættingu heimahjúkrunar og heimahjúkrunar.


Vopnafjarðarhreppur tók við rekstri Sundabúðar árið 2013 af Heilbrigðisstofnun Austurlands, en stofnunin hafði þremur árum fyrr viðrað hugmyndir um að loka hjúkrunarheimilinu vegna hallareksturs.

Uppsafnaður halli síðan sveitarfélagið tók við er kominn í um 300 milljónir króna. Sveitarstjórn óskaði eftir að ríkið greiddi hallann en fékk í byrjun árs svar um að ríkið hefði uppfyllt sínar skyldur samkvæmt lögum. Ef hreppurinn treysti sér ekki lengur í reksturinn væri rökréttast að skila Sundabúð til HSA.

Vopnfirðingar settu því hjúkrunarheimilið í forgang þegar austfirskar sveitarstjórnir funduðu með ríkisstjórninni þegar hún kom austur í lok ágúst. Við það tækifæri lýsti Willum vilja til að skoða málin.

„Það hefur verið staðið myndarlega að rekstrinum og þjónustunni alla tíð. Síðan hafa hlutirnir þróast þannig að önnur hjúkrunarrými á Austurlandi en þessi tíu eru komin til HSA. Við setjumst saman yfir hvernig við vinnum úr þessu,“ sagði hann eftir fundinn.

Gott að eldast


Hann nefndi einnig verkefnið Gott að eldast, um samþættingu þjónustu við eldra fólk milli ríkis, sveitarfélaga og heilbrigðisstofnana. Grunnurinn er aðgerðaáætlun sem Alþingi samþykkti í vor. Fjarðabyggð og Múlaþing hafa þegar óskað eftir þátttöku í því verkefni.

Í umsókn Múlaþings er þó vakin athygli á því að aukin félagsleg þjónusta við eldri borgara á heimili þeirra geti sparað dýrari úrræði á vegum ríkisins, á sjúkrastofnunum og hjúkrunarheimilinu, en um leið flytjist kostnaður frá ríki til sveitarfélaga. Því þurfi auknir fjármunir í þjónustu við eldra fólk að fylgja með.

Málefni hjúkrunarheimilanna voru einnig til umræðu á Alþingi nýverið. Þar tóku til máls þingmenn sem lýstu vonum með að vel gæti tekist til með Gott að eldast. Meðal þeirra var Ragnar Sigurðsson sem þá sat á sem varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi.

Hann sagði frá því að milli HSA og Fjarðabyggðar væri unnið að því að koma stoðþjónustunni, það er heimaþjónustu, dagþjónustu og heimahjúkrun á einn stað með sameiginlegan fjárhag og stjórnun. Það væri þarft til að gera þjónustuna skilvirkari, hagkvæmari og almennt betri. Þá kvaðst hann binda vonir við framfarir í fjarheilbrigðisþjónustu sem færði heilbrigðiskerfið nær skjólstæðingnum.

Þróa þarf þjónustuna um allt land


Málshefjandi var Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, sem sagði fyrirsjáanlegt að þörf væri fyrir fleiri en þau 400 nýju hjúkrunarrými sem fyrirhugað er að byggja næstu fimm árin. Miðað við spá um þróun mannfjölda væri þörf á 200 í viðbót árið 2028. Þá taldi hún ekki reiknað með kostnaði í rekstur rýmanna í fjármálaáætlun.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, var meðal þeirra sem bentu á að bætt hefði verið framlögun til heimahjúkrunar síðustu ár og svo væri gert áfram með 360 milljónum til öldun þjóðarinnar á fjárlögum næsta árs. Hún benti á að þróa þyrfti þjónustuna í samræmi við aðstæður í ólíkum samfélögum um allt land, sérstaklega þyrfti að skoða stöðuna þar sem sveitarfélög reka hjúkrunarheimili í minni byggðakjörnum eins og á Vopnafirði, Þórshöfn og Grenivík.

Fleiri þingmenn kjördæmisins tóku til máls í umræðunni. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, frá Vinstrihreyfingunni – grænu framboði, sagði margt hafa áunnist síðustu ár og ánægjulegt væri að haldið yrði áfram. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sagði að þótt þörf væri á fjölbreyttari úrræðum en í dag væri ekki hægt að reikna með að heimahjúkrun leysti vanda hjúkrunarheimilanna. Jakob Frímann Magnússon, Flokki fólksins, sagðist telja að grunnur vandans væri húsnæðisskortur og hvatti til þess að húsnæðisþátturinn yrði tekinn út úr forsendum neysluvísistölunnar.