Ræða hvernig koma eigi merkum minjum að Stöð á kort ferðafólks
Aukin ferðaþjónusta er meðal þess sem Stöðfirðingar horfa til sem mikilvægrar stoðar fyrir bæjarfélagið til framtíðar. Þar ræða menn meðal annars um að ferðaþjónustuaðilar leggist allir á eitt í því samhengi en ekki síður hvernig má koma afar merkjum minjum að Stöð almennilega á kort ferðafólks.
Stöðvarfjörður er sem kunnugt er þátttakandi í byggðaverkefninu Brothættar byggðir sem er samstarfsverkefni Byggðastofnunar, Austurbrúar og Stöðfirðinga sjálfra. Vegna þess hefur verið fundað töluvert ört undanfarin misseri meðan leitað er leiða til að styrkja stoðir bæjarins og fjölga tækifærum á svæðinu en Valborg Ösp Árnadóttir Warén, verkefnisstjóri, hefur verið ötul við að koma á fundum, stórum sem smáum, til að ná niðurstöðum sem allir eru sáttir við.
Einn slíkur fundur fór fram í vikunni þar sem eitt og annað bar á góma en ferðaþjónusta og tækifæri þar voru þar ofarlega. Kom þar fram mikill vilji að kynna og auglýsa þær stórmerku minjar sem fundist hafa við fornleifagröft að Stöð í firðinum síðastliðin ár. Rannsóknir á staðnum leitt margt fróðlegt í ljós, fleiri hundruð munir fundist og síðast en ekki síst sú staðreynd að mælingar benda til að elsti skálinn á staðnum sé frá því fyrir eiginlegt landnám á Íslandi.
„Við fórum [á fundinum] yfir þau starfsmarkmið sem eru merkt 2024 og forgangsröðun á þeim,“ segir Valborg. „Flest erum við sammála um að leggja áherslu á hvernig hægt sé að vekja meiri athygli á fornleifagreftinum inn á Stöð og enn meiri áherslu á að styrkja ferðaþjónustuna á staðnum. Við ræddum líka um að stofna hóp ferðaþjónustuaðila á Stöðvarfirði til að skerpa á verkefnunum þar.“