Rafmagnslaust á Fljótsdalshéraði
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 06. nóv 2023 22:27 • Uppfært 06. nóv 2023 23:02
Rafmagnslaust varð á öllu Fljótsdalshéraði upp úr klukkan tíu í kvöld eftir að byggðalínan frá Fljótsdal yfir í Skriðdal leysti út og sömuleiðis spennir í tengivirki við Eyvindará.
Útleysingin varð á Fljótsdalslínu 2, sem liggur frá Fljótsdalsstöð yfir að Hryggstekk í Skriðdal. Rafmagn var tekið á línunni í gærkvöldi eftir að bilun varð vegna ísingar. Viðgerð lauk í dag og búið var að setja rafmagn aftur á línuna.
Vandræði hafa verið með fleiri línur í byggðalínuhringnum á Norður- og Austurlandi síðasta sólarhringinn. Hólalína, milli Akureyrar og Hólasands, bilaði síðustu nótt. Gera á við hana á morgun. Þá hefur í dag staðið yfir viðgerð á Kröflulínu 1, milli Akureyrar og Kröflu.
Þegar ástandið er þannig á byggðalínuhringnum er hann viðkvæmari fyrir víðtækum áhrifum útleysingar, eins og varð á Fljótsdalslínu í kvöld.
Rafmagn komst aftur á um klukkan 22:30. Fljótsdalslína 2 er enn úti. Leitað verður að bilun á henni í fyrramálið.