Raftenging skipa í Seyðisfjarðarhöfn næst ekki fyrir sumarið

Á Seyðisfirði hefur um hríð verið unnið að því að ferjan Norræna og smærri skemmtiferðaskip geti tengst við rafmagn úr landi í stað þess að keyra á olíu meðan þau staldra við í höfninni. Vonast var eftir að það yrði að veruleika strax í vor eða snemma í sumar en nú er ljóst að það næst ekki.

Fátt mengar meira en skipaolía og mikið kapp hefur verið lagt á síðastliðin ár víðast í heiminum að minnka þá mengun eins og kostur er enda skilar sú mengun sér að hluta til yfir alla þá bæi og borgir sem taka mót skipum. Vænlegasta lausnin meðan skip nota enn slíka olíu er að tengja þau við rafmagn í landi þann tíma sem stöðvað er í höfnum en á meðan þarf ekki að keyra dísilvélar skipanna.

Hjá Seyðisfjarðarhöfn, sem tekur mót mesta fjölda skemmtiferðaskipa á Austurlandi auk reglulegra ferða Norrænu, hefur síðustu árin verið unnið að því að landtengja skip. Fyrstu áætlanir gerðu ráð fyrir að raftengja aðeins ferjuna Norrænu en þær útvíkkaðar til að hægt yrði að tengja að minnsta kosti eitt af smærri skemmtiferðaskipunum á sama tíma. Vonir manna stóðu til að þetta markmið næðist hugsanlega fyrir næsta sumarið en Rúnar Gunnarsson, hafnarvörður, segir ljóst orðið að það verði ekki raunin.

„Það er orðið hæpið að það markmið náist í sumar. Aðalmálið er að það gengur erfiðlega að fá fólk til að vinna verkið. Megnið af þeim búnaði sem til þarf er kominn til okkar en það gengur illa að fá hingað þá sérfræðinga sem til þarf til að setja þetta kerfi upp. Ég myndi skjóti á að ef það fer að ganga betur gætum við hugsanlega farið að tengja skip hér í sumarlok eða svo.“

Eins og liðin sumur verður Seyðisfjörður vinsælt stopp skemmtiferðaskipa hérlendis. Von er á fyrsta skemmtiferðaskipinu þangað eftir rétt rúman mánuð þann 23. apríl og eftir það linnulitlar heimsóknir slíkra skipa fram í miðjan októbermánuð.

Ekki óalgengt hin síðari ár að vitna tvö eða þrjú skemmtiferðaskip í einu í Seyðisfirðinum. Nokkrir slíkir dagar verða raunin í sumar líka. Mynd Múlaþing

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.