Rammaskipulag fyrir Stuðlagil á lokametrunum
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 01. des 2023 15:31 • Uppfært 01. des 2023 15:32
Í dag rennur út frestur sem almenningur hefur til að senda inn athugasemdir við rammaskipulag fyrir svæðið umhverfis Stuðlagil á Jökuldal. Það hefur á fáum árum orðið að fjölsóttasta ferðamannastað á Austurlandi.
Fegurð Stuðlagils hefur verið heimafólki þekkt í áraraðir. Aðgengi að því batnaði þegar jökulvatnið var tekið úr Jökulsá á Dal stóran hluta ársins með tilkomu Kárahnjúkavirkjunar árið 2007. Árið 2017 urðu síðan straumhvörf í aðsókn ferðamanna sem skyndilega byrjuðu að dúkka upp til að leita að gilinu eftir að myndir af því birtust í erlendum ferðatímaritum.
Umbreytingin sést meðal annars í umferðartölum Vegagerðarinnar. Sumarið 2012 lögðu 37 bílar á dag á Efra-Jökuldal en árið 2020 voru þeir orðnir yfir 400. Síðan hefur aðsókn að gilinu aðeins vaxið. Samkvæmt tölum Ferðamálastofu hafa tæplega 200.000 manns heimsótt svæðið í ár, 113.170 í landi Grundar að norðanverðu en 84.290 í landi Klaustursels að austanverðu. Í fyrra voru gestirnir tæplega 140 þúsund.
Skilgreina þjónustusvæði
Þessi ferðamannasprengja hefur valdið ágangi á land og samfélag. Undanfarin ár hefur orðið hröð uppbygging á þjónustu og aðgengi á svæðinu en meira þarf til. Hluti af þeirri uppbyggingu er skipulagsgerð en Austurbrú og Múlaþing hafa unnið að henni með landeigendum og skipulagsráðgjöfum síðustu ár. Skipulagslýsing var fyrst auglýs um miðjan desember 2021 og unnið áfram með hana að fengnum athugasemdum. Rammaskipulagið var auglýst í vor og nú auglýst eftir eftir úrvinnslu á athugasemdum sem bárust þá.
Í grófum dráttum felur skipulagið það í sér að landnotkun er breytt á hluta jarðanna Hákonarstaða, Grundar og Klaustursels sem eru næstar gilinu. Þar er meðal annars gert ráð fyrir gistihúsum, þjónustuhúsum, bílastæðum, tjaldsvæðum, veitingasölu, afþreyingu og gönguleiðum. Byggingamagn samkvæmt skipulaginu verður allt að 7000 fermetrar, mest í landi Grundar eða 4900 fermetrar. Byggingamagnið á Grund hefur þó verið minnkað í ferlinu.
Aukið öryggi gesta
Skipulagið tekur til nánasta umhverfis Stuðlagils, meðal annars Eyvindarárgils og eyðibýlisins Bröttugerði sem standa fyrir innan það. Í því má finna ráðstafanir til að auka öryggi og ánægju gesta af heimsókninni, svo sem með merkingum, hönnunarstöðlum fyrir mannvirki og nýjum útsýnispöllum en einnig umhverfisverndarmál svo sem uppgræðslu hliðarslóða sem orðið hafa til síðustu ár.
Vegir sem liggja inn á svæðið, bæði niður að þjónustusvæði á Grund en einnig inn að Stuðlafossi frá Jökuldalsvegi, verða skilgreindir sem tengivegir líkt og þjóðvegurinn en ekki héraðsvegir eins og nú. Í nýjustu útgáfu skipulagsins er skilgreind náma norðan við Stuðlafoss með efni fyrir vegi og stíga. Við fossinn er skilgreint þjónustusvæði fyrir fólk sem ætlar að ganga niður í gilið.