Rampur númer 800 vígður á Egilsstöðum
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 05. sep 2023 10:48 • Uppfært 05. sep 2023 10:52
Því var fagnað á Egilsstöðum í síðustu viku að búið er að byggja upp 800 rampa í átakinu Römpum upp Ísland en vinnu sumarsins lauk á Austurlandi. Stefnt er á að allt í allt verði byggðir 1500 rampar til að bæta aðgengi hreyfihamlaðs fólks að samkomu- og þjónustustöðum um allt land.
„Ég man þegar þetta áttu að vera 100 rampar í miðbæ Reykjavíkur. Það þróaðist í Römpum upp Ísland í byrjun árs 2022. Þá áttu ramparnir að vera 1000 en urðu síðan 1500. Hér erum við að vígja ramp númer 800 og af þeim eru 46 hér á Austurlandi,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra við athöfnina.
Bæði hún og fleiri ráðherrar töluðu um að átakið væru víðtæk áminning í úrbótum í aðgengismálum. „Fyrir mér er þetta verkefni meira en ramparnir. Það snýst um hvernig við getum rutt í burtu þröskuldum, hvort sem þeir eru áþreifanlegir eða óáþreifanlegir. Þetta vekur okkur til meðvitundar um að við höfum ekki öll aðgengi að sömu sviðum samfélagsins. Markmið stjórnmálanna á að vera að ryðja í burtu þröskuldum.“
„Þetta er til merkis um að við erum að taka betur utan um og virða mannréttindi í landinu,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. „Verkefnið hefur aukið umræðuna, samtalið og áhugann um að ryðja þröskuldum úr vegi,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra.
Hlakkar til að geta ferðast um landið með fjölskylduna
Römpum upp verkefnið er hugarfóstur Haraldar Þorleifssonar, hönnuðar, en hann notast við hjólastól. Hann var ásamt fleirum viðstaddur athöfnina á Egilsstöðum á fimmtudag.
„Ég á mjög fallegar minningar um að ferðast um landið með fjölskyldunni minni þegar ég var yngri. Langar fallegar sumarnætur í fallegri náttúru og heit pylsa í bæjarsjoppum landsins.
Ég áttaði mig á því fyrir nokkrum árum að börnin mín hafa ekki fengið þessar upplifanir. Við fjölskyldan höfum ekki getað ferðast um landið þar sem aðgengið hefur ekki verið nógu gott. Þúsundir aðrir einstaklingar og fjölskyldur eru í sömu stöðu.
Ég hlakka mikið til að byrja að sýna krökkunum fallega landið okkar. Það hefur verið frábært að sjá móttökurnar eftir að við lögðum af stað. Allt samfélagið hefur komið saman og það hefur skilað sér í þessum frábæra árangri,“ sagði hann í yfirlýsingu eftir viðburðinn.
Samstarfið forsenda árangurs
Markmiðið um 1500 rampa á að nást fyrir 11. mars 2025. Verkefnið hefur fengið styrki frá fyrirtækjum og opinberum aðilum fyrir vinnu og efni en sveitarfélögin kosta uppihald og tryggja undirbúning þannig að verkið gangi sem hraðast fyrir sig.
„Þetta gerist ekki nema með samstarfi. Haraldur á frumkvæðið að hugmynd sem lét ekki mikið yfir sér í upphafi en hún næst ekki fram nema með samstarfi og sveitarfélögin hafa verið samstarfsfús. Þegar vogaraflið er virkjað gerist mikið á stuttum tíma,“ sagði Bjarni.
Margrét Lilja Aðalsteinsdóttir, formaður Sjálfsbjargar, færði ríki og sveitarfélögum þakkir fyrir samvinnuna. „Ég get ekki undirstrikað hversu mikilvægt þetta verkefni er því við viljum búa í og tilheyra samfélagi sem gerir ráð fyrir okkur. Það er mikilvægt að við höldum áfram þessari þverfaglegu samvinnu því þannig náum við virkilegum árangri.“