Skip to main content

Rannsaka hvort hægt sé að nota seyru úr fiskeldi sem áburð

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 25. ágú 2023 15:40Uppfært 25. ágú 2023 15:44

Anna Berg Samúelsdóttir, sérfræðingur hjá Matís á sviði sjálfbærni og eldi, leiðir nú verkefni hjá fyrirtækinu sem miðar að því að kanna hvort hægt sé að nota örverur til að auðga seyru frá fiskeldi þannig að hægt sé að nota hana sem áburð. Nýting fleiri hliðarafurða frá fiskeldi er jafnframt til skoðunar þar.


Vinnustofa um verkefnið Örverur til auðgunar fiskeldisseyru (ÖAF) var haldin í sumar. Þangað mættu sérfræðingar innan fagsins til að ræða um verkefnið og þá möguleika sem seyran getur falið í sér.

„Við erum að skoða hvort hægt sé að nota örverur sem eru í seyrunni, eða setja aðrar örverur í hana, til að auðga köfnunarefnismagnið,“ segir Anna Berg.

Grunnefnin í öllum áburði eru köfnunarefni eða nitur, fosfór, og kalíum (N,P,K). Hlutfall þeirra er mismunandi eftir áburði, auk þess sem fleiri efni bætast við og mismunandi áburður er notaður eftir því hvers konar ræktun er í gangi.

Rík af fosfór og köfnunarefni


Á vegum Matís hefur verið könnuð efnasamsetning frá tveimur mismunandi eldistöðum. Þær benda til þess að seyran úr eldinu sé tiltölulega rík af fosfór, sem er verðmætt efni. Bæði eru náttúrulegar birgðir þess í heiminum þverrandi, en að auki eru fosfórsnámurnar að miklu leyti í Rússlandi. Verð á fosfór og þar með áburði hefur rokið upp vegna viðskiptaþvingana sem settar voru á eftir innrás Rússlandshers í Úkraínu.

Köfnunarefnið er hins vegar hvað mikilvægast fyrir gróðurvöxt, það er um 70% innihalds tilbúins áburðar en 40-60% seyrunnar, sem er í sjálfu sér ágætt hlutfall miðað við annan húsdýraáburð, svo sem kúamykju og hrossatað. Seyran, sem inniheldur bæði úrgang frá fiskunum og fóðurleifar, er með sambærilegt eða meira köfnunarefni en dýraúrgangurinn, sem og meiri fosfór en vantar kalíum og einnig magnesíum. Hjá Matís standa yfir rannsóknir á því hvort hægt sé að hækka hlutfall köfnunarefnisins með örverum.

„Við eigum von á niðurstöðum úr okkar tilraunum í nóvember. Við ætluðum að vera búin fyrr en seinkunin er alveg eðlileg og á sér þá skýringu að örverurnar þurfa sinn tíma til að vinna og þær vinna bara ekki hraðar. Út frá niðurstöðunum getum við svo metið hvort seyran sé fýsileg sem áburður og skoðað hvernig best er að koma henni á markaðinn í nothæfu formi. Ef hún sjálf er ekki nógu öflug þá má skoða hvort hægt sé að blanda henni við önnur efni, til dæmis moltu eða þara,“ segir Anna Berg, en þarinn er ríkur af kalíum og magnesíum.

Iðnaðurinn vill minnka sóun


Í verkefninu er fyrst og fremst horft á eldi á landi, enda er það unnið með þeim fyrirtækjum sem stefna á það. „Þær verksmiðjur hafa mikinn áhuga á að nýta seyruna. Iðnaðurinn vinnur með okkur því það er honum á allan hátt til gagns að missa sem minnst frá sér eða verða fyrir sem minnstum ytri áhrifum. Það hefur til dæmis verið unnið að því að þróa fóður sem leysist sem fyrst upp svo það falli síður til botns. Þar er mikil þróun.“

Í sjókvíaeldi fellur úrgangurinn til botns og hefur verið bent á það sem einn helsta umhverfisþátt starfseminnar þar sem ofauðgun næringarefna getur kæft líf undir kvíunum. Þess vegna eru eldissvæði hvíld eftir að búið er að slátra af þeim áður en næsta kynslóð er sett út.

Erlendis er farið að vinna með þróun á lokuðum sjókvíum sem ná að fanga úrganginn frá fiskinum frekar en að hann falli til botns. Matís hefur auga með þeirri þróun. „Við höfum séð bæði sjókvíar sem eru hálflokaðar, það er að neðan og svo alveg lokaðar. Það eru miklar rannsóknir í gangi erlendis og margar hugmyndir um lausnir fyrir fiskeldi,“ segir Anna Berg.

Kanna möguleika í blóðvatni


Hjá Matís er einnig verið að skoða fleiri hliðarafurðir úr fiskeldinu. „Við erum að skoða til dæmis innyfli og annað sem hent er frá en líka fisk sem drepst í sjókvíaeldi og blóðvatnið.

Dauði fiskurinn er í dag settur í sýru sem leysir hann upp þannig að úr verður melta. Hún er send til Noregs. Okkar sérfræðingar eru að skoða hvort hægt sé að koma meltunni í þannig form að hægt sé að nýta hana sem áburð eða aðra hliðarafurð sem færi ekki í manneldi.

Blóðvatnið fer í dag út í fráveiturnar frá sláturhúsunum. Í því eru næringarefni sem við viljum athuga hvort séu nýtanleg. Til þess verður að tryggja að það séu engar veirur í blóðinu sem borið geta sjúkdóma og þannig viðhaldið óæskilegri hringrás. Reyndin í dag er hins vegar að þetta vatn fer út.

Ég og Katrín Hulda Gunnarsdóttir, fyrir hönd Matís í samstarfi við K-Tech, fyrirtæki á Reyðarfirði sem þjónustar fiskeldið, sóttum nýverið um styrk í umhverfissjóð sjókvíaeldis til að fá rannsakað hvort hægt sé að dauðhreinsa blóðvatn með ósontækni. Því miður fengum við ekki styrk, sem voru mikil vonbrigði. En fyrirtækið, K-Tech, hefur lýst yfir vilja til að hefja samstarf við Matís varðandi þetta verkefni án aðkomu sjóðsins.

Blóðvatnið hefur talsvert verið rannsakað í Noregi og þar er komnar fram fyrstu niðurstöður úr einni rannsókn sem benda til að efni úr blóðvatni laxfiska sé nýtanlegt til að hjálpa fólki sem glímir við blóðleysi.“

Eftirlitið má ekki verða of flókið


Miklar rannsóknir og þróun eiga sér því stað í fiskeldinu í anda hringrásarhagkerfisins, sem miða að því að fullnýta hráefni og minnka úrgang. Anna Berg segir að samhliða þeim verði líka að fara yfir lög og reglur sem gilda um greinina og meðhöndlun hliðarafurða eða úrgangs.

„Við höfum rekið okkur á hluti þar. Reglurnar geta verið flóknar til dæmis er oft skörun á milli stofnana, sem eiga að sjá um eftirlit mismunandi reglugerða. Við getum ekki slakað á eftirlitinu því þetta er matur og hann má ekki mengast, en við verðum að skoða hvort við getum einfaldað kerfið.

Þróunin er oft hraðari heldur en regluverkið. Ef aðilar í þróun mæta oft lokuðum dyrum er hætta á að hvati þeirra til að efla hringrásarhagkerfið minnki. Einmitt á þessu sviði er Matís mikilvægur hluti af þróuninni með því að tryggja gott og árangursríkt samtal.“

Greinin birtist áður í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.