
Rannsaka hvort ná megi heitu vatni undan Lagarfljóti
Síðari hluta sumars hafa staðið yfir frumrannsóknir á því af hálfu HEF veitna hvort nægt heitt vatn finnist undir Lagarfljótinu til að verðskulda boranir. Þessar rannsóknir tengjast þeirri jarðhitaleit sem staðið hefur yfir í Eiðaþinghá um eins og hálfs árs skeið.
Fyrirtækið á enn í viðræðum við landeigendur að Mýnesi II og Breiðavaði um áframhaldandi leit og nýtingu ef svo ber undir en nokkuð umfangsmiklar mælingar gefa til kynna nægt heitt vatn þar í jörð til nýtingar. Gangi allt eftir er hugmyndin að heitaveituvæða alla leið að Eiðum í framtíðinni.
Það er hins vegar nýlunda að leita undir Lagarfljótinu sjálfu en þar hefur Glúmur Björnsson, jarðfræðingur, verið að kanna aðstæður síðustu vikur og þá fyrst og fremst undir fljótinu við bæinn Fljótsbakka.
Aðspurður hvort einhver sérstök vandkvæði fylgi hugsanlegum borunum undir Lagarfljótinu segir Aðalsteinn Þórhallsson, framkvæmdastjóri HEF, svo ekki vera. Bortækni nútímans ráði vel við að borað sé undir vötn frá landi og bendir meðal annars á velheppnaðar boranir með þeim hætti undir Urriðavatninu.
Horft frá Egilsstöðum út eftir Lagarfljótinu þegar það síðast flæddi yfir bakka sína. Ekki er talið útilokað að heitt vatn finnist undir fljótinu sjálfu og rannsóknir á því standa yfir. Mynd GG